Borgarstjórinn í Reykjavík hefur auglýst stöðu borgarritara lausa til umsóknar. Umsóknarfrestur er til og með 2. mars 2020.
Leitað er að kraftmiklum leiðtoga sem býr yfir frumkvæði og faglegum metnaði, er annt um umhverfi sitt, samfélag og velferð íbúa.
Borgarritari er æðsti embættismaður Reykjavíkurborgar að borgarstjóra undanskildum. Hann fer með forystu- og samhæfingarhlutverk í stjórnsýslu og þjónustu borgarinnar. Borgarritari er einn af staðgenglum borgarstjóra og tilheyrir yfirstjórn Reykjavíkurborgar.
Hlutverk- og ábyrgðarsvið
Hlutverk borgarritara er að hafa forystu um að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi í þróun þjónustu, stjórnsýslu og rekstri á landsvísu og standist samanburð við framsæknar borgir í alþjóðlegum samanburði.
Borgarritari sér til að stefnumörkun borgarráðs og borgarstjórnar sé fylgt eftir með upplýsingamiðlun og stoðþjónustu við fagsvið borgarinnar, auk þess að halda uppi eftirlit með að framkvæmd sé í samræmi við markaða stefnu og fjárhagsheimildir og hefur yfirumsjón með miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.
Þá er borgarritara ætlað að stuðla að lýðræðislegum stjórnunarháttum með því að auka gegnsæi og styrkja upplýsingaflæði milli stjórnenda, sviða og stofnana borgarinnar, íbúa og annarra samráðsaðila.
Borgarritari fer fyrir samningateymi Reykjavíkurborgar í samskiptum við ríkið, er tengiliður Reykjavíkurborgar við byggðasamlög og B-hluta félög og við atvinnulífið í Reykjavíkurborg og á landsvísu. Borgarritari leiðir einnig stór og flókin verkefni sem kalla á samhæfingu og samræmingu innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar og utan þess.
Undir borgarritara heyra skrifstofa borgarstjóra og borgarritara og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa.
Menntunar- og hæfniskröfur
Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
- Leiðtogahæfileikar, farsæl reynsla af stjórnun ásamt reynslu af því að leiða breytingar.
- Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu, stefnumótun og áætlanagerð.
- Þekking og reynsla af rekstri og mannaforráðum.
- Þekking og reynsla af samningagerð og undirbúningi samninga.
- Lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum.
- Framsýni, metnaður, frumkvæði og skipulagshæfileikar.
- Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku. Kunnátta í öðrum tungumálum er kostur.
Intellecta heldur utan um ráðningarferlið fyrir Reykjavíkurborg og hægt er að sækja um stöðuna á vef Intellecta
Nánari upplýsingar um starfið veita Ari Eyberg (ari@intellecta.is), Thelma Kristín Kvaran (thelma@intellecta.is) og Lóa Birna Birgisdóttir sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar (loa.birna.birgisdottir@reykjavik.is).
Ráðgefandi hæfnisnefnd
Samkvæmt reglum um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður, hefur verið skipuð ráðgefandi hæfnisnefnd, sem hefur það hlutverk að fara yfir umsóknir og leggja mat á hæfni umsækjenda. Nefndin skal leggja rökstutt mat á hvort umsækjendur uppfylli skilyrði auglýsingar sem og að meta hæfni þeirra út frá þeim matsviðmiðum sem nefndin setur í upphafi ráðningarferilsins. Ráðgefandi hæfnisnefnd skal stuðla að því að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist af hæfni umsækjenda og að ráðningarferlið sé þannig að gagnsæi og jafnræði sé haft að leiðarljósi og einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á stjórnendum.
Hæfnisnefndina skipa Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem jafnframt er formaður, Ásta Bjarnadóttir, mannauðsstjóri Landspítalans, og Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands.