Reykvíkingar búa svo vel að hafa fjölmörg svæði sem kjörin eru til útiveru innan borgarmarkanna. Fyrir þá sem vilja vera duglegri að kynna sér ný svæði er búið að búa til útibingó þar sem hægt er að safna útivistarsvæðum. Það er kjörið að nýta tímann nú þegar hvatt er til þess að fólk sé sem mest heima að kanna nærumhverfi sitt betur. Það eru til ýmsar perlur í borginni sem margir þekkja en ekki nærri allir hafa heimsótt.
Kosturinn við Reykjavík er að það er stutt í alls konar náttúru, bæði heiðar og fjöll og strandlengjan veitir líka mörg tækifæri til hreyfingar og útivistar. Við höfum því sett saman útibingó af því tilefni.
Hér er hægt að nálgast útivistarbingóið.
Þeir sem heimsækja einhver af þessum svæðum á bingóspjaldinu eru hvattir til að birta mynd á Instagram og og merkja (tagga) Reykjavíkurborg (@reykjavikurborg) og segja hvar þeir eru. Taktu endilega þátt í útibingóinu á samfélagsmiðlum. Það er svo gaman að sjá fallegar myndir af náttúrunni í borginni eða fólki að njóta hennar.
Dreifum okkur, ekki veirunni!
Útivistarsvæði Reykjavíkurborgar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda heilsu borgarbúa á tímum samkomubanns. Gangandi umferð hefur eftir því verið mikil á vinsælustu útivistarsvæðum borgarinnar, eins og Elliðaárdal og Fossvogsdal að undanförnu, ekki síst um helgar. Þar hafa flestir sýnt kurteisi og virt tilmæli um tveggja metra bil.
Mikilvægt er að fólk fari eftir tilmælum forystusveitar landsins í veiruvörnum og haldi tveggja metra fjarlægð við næsta mann í göngutúrum. Alls staðar þarf að tryggja að minnst tveir metrar séu á milli manna, alveg sama hvort það er í næstu matvörubúð eða úti í náttúrunni.
Tökum tillit til annarra
Ástæða er samt til að minna á að ef fólk er ekki eitt á ferð þarf að huga að því fara í einfalda röð þegar verið er að mæta öðrum á göngustígum eða jafnvel víkja til hliðar af stíg ef þess þarf. Til viðmiðunar er venjulegt rúm um tveir metrar á lengd og þrjú stutt skref eru líka um tveir metrar. Mikilvægt er að virða hægri umferð og halda sig hægra megin á stígum þegar verið er að mæta fólki til að hindra vandræðagang.
Það er hins vegar alls engin ástæða til að hætta að hreyfa sig heldur þarf einungis að vanda sig meira en venjulega. Aðstæður fólks eru mismunandi og eldra fólk og fólk í öðrum áhættuhópum vill líka geta fengið sér frískt loft og hreyft sig og liðið öruggt. Tökum tillit til annarra.
Embætti landlæknis sendi nýverið frá sér tíu heilræði á tímum kórónuveiru og er fjórða heilræðið einmitt það að hreyfa sig rösklega á hverjum degi. Þar segir að hreyfing sé mikilvæg fyrir andlega og líkamlega vellíðan, betri svefn og aukið þrek. Mælt er með því að börn hreyfi sig í að minnsta kosti klukkutíma og fullorðnir í minnst 30 mínútur á hverjum degi. Alltaf sé samt betra að hreyfa sig eitthvað smávegis frekar en ekki neitt.