Rauntímaupplýsingar í strætóskýlum

Samgöngur Mannlíf

""

Rauntímaupplýsingar frá Strætó munu birtast í öllum stafrænum strætóskýlum í Reykjavík frá og með deginum í dag, föstudegi 29. maí. Þær sýna farþegum, sem bíða í biðstöðvum Strætó, hversu margar mínútur eru í næsta vagn.

Þetta er stórt skref í átt að betri þjónustu fyrir viðskiptavini Strætó en þessi virkni mun eyða óvissu og bæta upplifun þeirra sem eru að bíða eftir vagni.

Stafrænu strætóskýlin í Reykjavík verða um 100 talsins

Það eru nýju LED-skýlin sem gera það kleift að sýna rauntímaupplýsingar á staðnum. Reykjavíkurborg gerði samning við Dengsa ehf. um uppsetningu og rekstur á strætóskýlum fyrir borgina. Alls eru 56 biðstöðvar í dag með LED-skjám sem öll fá rauntímaupplýsingar á föstudaginn. Stefnt er að því að fjöldi skýla sem sýnir þessar hagnýtu upplýsingar verði um 100 fyrir árslok

Tvær línur efst á skjánum

Rauntímaupplýsingarnar verða sýnilegar sem tvær línur efst á auglýsingaskjánum sem eru í þessum nýjustu strætóskýlum Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram hversu margar mínútur eru í næsta vagn.

Til stendur að gera þessar upplýsingar aðgengilegar í Strætó-appinu svo notendur þess geti nálgast rauntímaupplýsingarnar í hvaða biðstöð sem er.