Snemma vors árið 2019 skipaði mannréttinda- og lýðræðisráð starfshóp um aukið gagnsæi og aðgengilegra ferli varðandi styrkjaúthlutanir Reykjavíkurborgar.
Um leið og starfshópurinn kynnir sínar niðurstöður er nú óskað eftir umsögnum fyrir 22. júní næstkomandi á netfangið mannrettindi@reykjavik.is
Helstu verkefni starfshópsins voru að samhæfa regluverk um úthlutanir styrkja, að tryggja sýnileika umsókna og veittra styrkja Reykjavíkurborgar og koma á rafrænu umsóknarferli.
Hópurinn tók saman yfirlit yfir alla styrki og reglur borgarinnar með því að kalla eftir upplýsingum frá fagsviðum. Markmiðið var að samhæfa regluverk og ná yfirsýn yfir verkefni hópsins.
Niðurstaða starfshóps er að farið verði í aðgerðir til þess að auka gagnsæi og eftirlit með samningum og úthlutunum styrkja, tryggja sýnileika og einfalda aðgengi íbúa að styrkjum.
Í tillögum hópsins kemur meðal annars fram að setja þurfi upp styrkjavef á reykjavik.is Markmiðið er að til verði einn rafrænn ferill sem hægt verður að nota fyrir alla styrki borgarinnar.
Reglur um styrki borgarinnar verði samhæfðar, sér í lagi þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að njóta styrkúthlutunar, skil gagna/afurða við verklok og eftirlit.
Gefin verði út Styrkjahandbók með leiðbeiningum fyrir umsækjendur um styrki og hins vegar handbók fyrir starfsfólk borgarinnar um afgreiðslu og meðhöndlun styrkja. Reglur verði samræmdar.
Á styrkjavefnum verður birt hverjir fá úthlutað styrkjum og birtar verða upplýsingar um samstarfs- og þjónustusamninga á vefnum.
Styrkjum úr borgarsjóði verði framvegis úthlutað tvisvar á ári í gegnum nýtt rafrænt umsóknarferli, sem alltaf er opið til að auka aðgengi og jafnræði þeirra sem hafa áhuga á styrkjum.
Fagráð munu þó áfram geta veitt svokallaða skyndistyrki vegna verkefna eða viðburða sem upp kunna að koma með litlum fyrirvara.
Auglýsingar um styrkjaúthlutun borgarinnar verði birtar í viðeigandi miðlum hverju sinni, þar sem tekið er mið af markhópum. Þó er felld niður regla um að auglýsa þurfi úthlutun styrkja í dagblöðum.
Starfshópinn skipuðu þau Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs, Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri borgarstjórnar, og Hreinn Hreinsson vefstjóri á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Freyja Barkardóttir af fjármála- og áhættustýringarsviði var starfsmaður hópsins.
Skýrsla starfshóps um aukið gagnsæi styrkjaúthlutana Reykjavíkurborgar