Stefnt er að því að sameina á einum stað starfsemi Reykjavíkurborgar vegna þjónustu við gæludýr undir nafninu Dýraþjónusta Reykjavíkur (DÝR), sem verður með aðstöðu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Samhliða stofnun DÝR verður Hundaeftirlit Reykjavíkur lagt niður og málefni katta einnig flutt til DÝR.
DÝR á að annast utanumhald og umsýslu vegna skráningar dýra, fræðslu og upplýsingagjöf um gæludýr, dýrahald í þéttbýli og þær reglur sem um það gilda, föngun og vistun dýra í vanskilum, móttöku dýra í hremmingum, samskipti við aðrar stofnanir innan sem utan borgarinnar, dýraeigendur og hagsmunasamtök þeirra.
Eins og áður segir er gert ráð fyrir að DÝR hafi aðsetur í Fjölskyldu- og húsdýragarði þar sem þegar er til staðar innra skipulag, mannauður og þekking hvað varðar dýrahald og fræðslu í málaflokknum. Áfram verða flókin mál og mál þar sem beita þarf þvingunarúrræðum unnin í samstarfi við HER auk þess sem heilbrigðiseftirlitið mun hafa eftirlit með starfseminni lögum samkvæmt.
Gæludýr eru lýðheilsumál
Í skýrslu stýrihóps um þjónustu við gæludýr segir að undanfarin misseri hafi fólki orðið „sífellt ljósari þau jákvæðu áhrif sem gæludýr hafa á fólk og samfélag þess. Þannig hefur dýrahald verið að festa sig í sessi víða um heim sem lýðheilsu og tómstundamál.“ Þarna segir að gæludýrahald geti leitt til „aukinnar hreyfingar, útiveru og einnig til aukinna samskipta við annað fólk.“ Þannig sé gæludýraeign talin draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika sem aftur bætir geðheilsu manna.
Rannsóknir benda þá til þess að hundahald sérstaklega geti aukið á samskipti innan fjölskyldna og dregið úr áhættuhegðun, segir í skýrslunni. Aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir hvolpum og kettlingum en núna eftir að Covid-19 skall á. Þannig virðast fólk leita í auknum mæli eftir félagsskap dýra sem sýnir hversu stóran sess þau skipa í lífi manna. Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfi til gæludýrahalds í borginni og auknar kröfur eru gerðar varðandi þjónustu við þau og eigendur þeirra. Þá fól löggjöf um dýravelferð í sér auknar kröfur til þeirra sem halda dýr sem og sveitarfélaga.
Áhersla lögð á að lækka gjöld og einfalda skráningar
Áhersla verður lögð á að fjölga skráðum dýrum í borginni, lækka gjöld og einfalda skráningar. Þá verði þjónusta við skráð dýr og eigendur þeirra gerð sýnilegri, ferlar varðandi dýr í neyð útbúnir og stuðlað með aukinni fræðslu að ábyrgara dýrahaldi og bættu samfélagi dýra og manna í þéttbýli. Loks verði útbúinn sérstakur sjóður, helgaður dýravelferð, ætlaður félagasamtökum og öðrum þeim sem vinna að velferð dýra.
Skoða skýrslu stýrihópsins um þjónustu borgarinnar við gæludýr.
Skoða tillögu stýrihópsins um þjónustu borgarinnar við gæludýr.