Ýmsar breytingar í þágu barna og fjölskyldna þeirra verða gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Áætlað er að nýjar reglur taki gildi 1. mars 2021. Hægt er að skila inn umsögn um breytingarnar í gegnum umsagnagátt velferðarsviðs.
Fjárhagsaðstoð til að mæta útgjöldum vegna barna, til dæmis vegna frístundaheimilis, daggæslu eða skólamáltíða, verður nú greidd samhliða fjárhagsaðstoð til framfærslu í þeim tilvikum þegar börn eru á framfæri umsækjanda. Áður þurfti að sækja sérstaklega um framangreinda aðstoð. Þetta er einn liður í breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð í þágu barna og fjölskyldna þeirra og er ein af tillögum starfshóps sem vann að greiningu á sárafátækt í Reykjavík.
Við breytingar á reglunum var haft samráð við fulltrúa notenda og hagsmunaaðila, meðal annars frá Pepp (People experiencing Poverty), EAPN (European Anti Poverty Network), Hugarafli og Hlutverkasetri, auk þátttakenda úr átaksverkefnunum Tinnu og Grettistaki. Ennfremur var leitað til fulltrúa frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Notendum, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum gefst kostur á að skila inn umsögn um drög að breytingum á reglunum. Þetta byggir á samþykkt velferðarráðs 2. desember sl., þar sem ákveðið var að vísa til drögunum til umsagnar hagsmunaaðila. Með því að smella á þennan hlekk er hægt að skoða þær breytingar sem lagðar eru til og skila inn rafrænum athugasemdum. Einnig má senda inn athugasemd með því að senda tölvupóst á velferd@reykjavik.is.
Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð tóku gildi þann 1. janúar 2011. Lagðar eru til nokkuð umfangsmiklar breytingar á reglunum, þó ekki sé um heildarendurskoðun að ræða. Helstu tillögur, auk þess sem að ofan er talið, eru eftirfarandi breytingar:
-
Á frádrætti vegna tekna þeirra sem ljúka endurhæfingu
-
Er varða framfærslu til einstaklinga sem stunda nám á framhaldsskólastigi
-
Á skilyrðum fyrir húsbúnaðarstyrk
-
Er varða greiðslu sérfræðiaðstoðar og útfarastyrks
-
Er varða tryggingu húsaleigu
-
Sem árétta og skýra þá framkvæmd sem nú er viðhöfð
-
Er varða orðalag og uppsetningu
Til hliðsjónar voru hafðar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tóku gildi í október 2018. Opið er fyrir umsagnir til 19. janúar 2021 og er áætlað að nýjar reglur taka gildi 1. mars.