Velferðarsvið borgarinnar hefur á síðustu vikum nýtt fjarskiptatæknina óspart í þjónustu við sitt fólk. Nýjasta dæmið eru spjaldtölvur sem teknar voru í notkun á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð til þess að íbúar þar gætu verið í samskiptum við sína nánustu í máli og mynd.
Í Seljahlíð búa 68 einstaklingar og þeim stendur öllum til boða að nýta sér tölvurnar en talið er að tæplega helmingur muni þiggja það, þ.e. þeir sem ekki eiga eða kunna vel á tölvur.
„Þetta er einfalt verkefni sem hefur mikla þýðingu fyrir íbúana,“ segir Arnar Guðmundur Ólason, verkefnastjóri hjá velferðartæknismiðju borgarinnar. Við notum Google Duo og hægt er að nota síma og spjaldtölvur með SIM-kort og símanúmeri. Arnar sá um að gera spjaldtölvurnar þannig úr garði að að íbúar þyrftu einungis að snerta einn flöt til að tengjast í myndsímtal.
„Það var dásamlegt að sjá hann, þótt það væri bara í gegnum tölvuna. Ég gat m.a. sýnt pabba nýju íbúðina mína sem hann hafði ekki séð áður. Við enduðum spjallið með bros á vör og ekki var verra fyrir afa að geta vinkað afabarninu sínu, henni Nínu,“ sagði Kolbrún Kristín Karlsdóttir eftir myndsímtal við föður sinn Karl Guðnason sem býr í Seljahlíð. Hún bætti því við að starfsfólk gætti þess vel að íbúar nytu persónverndar í spjallinu.
Að sögn Margrétar Árdísar Ósvaldsdóttur forstöðumanns í Seljahlíð er betra að sjá og heyra hvernig fólki líður þegar talað er saman og þess vegna séu myndsamtöl oft innihaldsríkara en venjulegt símtal. Allt starfsfólk hjúkrunarheimilisins fær kynningu á viðmótinu svo það geti verið íbúum til aðstoðar og rofið einangrun þeirra sem eru innilokaðir á hjúkrunarheimili vegna Covid19.