Í haust fengu einstaklingar sem búa í húsnæði fyrir fatlað fólk á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar 20 þúsund króna rafrænt gjafabréf sem nýta má að vild. Inneignin bætist við ferðagjöf stjórnvalda sem öllum landsmönnum barst í sumar. Gildistími gjafarinnar hefur verið framlengdur til 1. júni 2021 í ljósi aðstæðna í samfélaginu.
Í sumar bauð félags- og barnamálaráðuneytið sveitarfélögum að sækja um styrki til aukins félagsstarfs fyrir fullorðið fatlað fólks vegna áhrifa Covid-19. Velferðarsvið sótti um styrkinn fyrir fólk sem býr á heimilum fyrir fatlað fólk á vegum sviðsins. Þegar umsóknin hafði verið samþykkt var ákveðið að 20 þúsund krónum yrði bætt við ferðagjöf stjórnvalda sem öllum landsmönum barst í sumar. Upphaflega stóð til að verkefnið stæði til ársloka 2020 en tekin hefur verið ákvörðun um að framlengja það fram til 1. júní 2021 vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.
Tilgangurinn með gjöfinni er að stuðla að auknum möguleikum fullorðins fólks sem býr í húsnæði fyrir fatlað fólk hjá Reykjavíkurborg til að ferðast innanlands. Einstaklingum er þó frjálst að ráðstafa upphæðinni eins og þeir kjósa sjálfir, til ferðalaga eða annarra hluta. Gjöfin er í samræmi við meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem felur í sér að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra og fái frelsi til þess að taka eigin ákvarðanir. Reykjavíkurborg hefur innleitt hugmyndafræðina um sjálfstætt líf í sína starfsemi og er þessi útfærsla á nýtingu styrks stjórnvalda í samræmi við það.
Verkefnið var unnið í samráði við Landssamtökin Þroskahjálp og í samstarfi við Yay.is sem hafði umsjón með ferðagjöf stjórnvalda. Yay.is bætti gjöfinni til fatlaðs fólks í húsnæði á vegum velferðarsviðs við þá þjónustu án endurgjalds.
Ef einstaklingur sem býr í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík hefur ekki fengið smáskilaboðin eða notar ekki farsíma má hafa samband við Arne Friðrik Karlsson (arne.fridrik.karlsson@reykjavik.is) eða Katrínu Hörpu Ásgeirsdóttur (katrin.harpa.asgeirsdottir@reykjavik.is) til að leysa úr málinu.