Dalskóli og Langholtsskóli fá Íslensku menntaverðlaunin

Skóli og frístund Mannlíf

""

Dalskóli og Langholtsskóli hlutu í dag Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi þróunar- og skólastarf. 

Dalskóli hlaut í dag Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur og fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, m.a. með skapandi smiðjum. Þá hlaut hann verðlaunin fyrir starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf og leggja á það mat.

Í Dalskóla hefur frá upphafi verið lögð rækt við sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og skapandi starf, í tónlist, myndlist og öðrum list- og verkgreinum. Sköpunarkraftur og hugmyndaauðgi nemenda er virkjað og þeir fá þjálfun til þess að takast á við ýmis verkefni þar sem reynir á hæfni til þess að leysa vandamál og nota skapandi og gagnrýna hugsun. Í smiðjum er unnið yfir ákveðið tímabil með eitt þematengt verkefni og fléttað saman ýmsum kennsluaðferðum, inni- og útikennslu, leik og aðferðum skapandi listgreina.

Hildur Jóhannesdóttir hefur stýrt Dalskóla frá því hann tók til starfa 2010 í Úlfarsárdalnum. Skólinn sameinar leikskóla, grunnskóla og frístundastarf og hefur skilgreint sig sem menningarskóla þar sem nám er samþætt með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Dalskóli starfar nú í nýju og glæsilegu húsnæði sem tekið var að fullu í notkun á liðnu hausti.

Langholtsskóli fékk Íslensku menntaverðlaunin fyrir Smiðjuna í skapandi skólastarfi - þróunarverkefni á unglingastigi sem hefur það markmið að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

Smiðjan í skpandi skólastarfi hófst haustið 2017 að frumkvæði kennara skólans á unglingastigi og var liður í innleiðingu skólans á meginhugmyndum aðalnámskrár fyrir grunnskóla. Í öndvegi var sett hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt og í samvinnu við aðra, nýting margvíslegra miðla og tækni við þekkingarleit, úrvinnsla og miðlun á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt, auk þess sem nemendum voru gefin tækifæri til að bera aukna ábyrgð á námi sínu. Fjölbreytt nýting upplýsingatækni er rauður þráður í verkefninu og nemendur hafa spjaldtölvur til umráða. Verkefnið byggir á samþættingu námsgreina og lotukennslu og ná verkefnin til samfélags- og náttúrufræðigreina, íslensku, upplýsingatækni og lífsleikni. Mörg verkefnanna tengjast öðrum greinum, t.d. umhverfismennt og siðfræði. Nemendur fást við heildstæð verkefni sem þeir kryfja  og vinnubrögðin taka mið af hönnunarhugsun, vísindalegri nálgun, lausnaleitarnámi og nýsköpun.

Í Smiðju í skapandi skólastarfi er lögð áhersla á samstarf kennara og teymiskennslu og kennarateymið hefur kynnt og miðlað verkefninu víða í íslensku skólasamfélagi, bæði með því að bjóða skólafólki að heimsækja Langholtsskóla en einnig með kynningu á námskeiðum, menntabúðum og fræðslufundum. Vefsíðan www.smidjan.com er opin öllum með verkefnabanka og handbók.

Verkefnið hefur fengið styrki frá skóla- og frístundaráði og Rannís.

Hreiðar Sigtryggsson er skólastjóri í Langholtsskóla. Kennararnir Björgvin Ívar Guðbradsson og Hjalti Halldórsson tóku við Íslensku menntaverðlaununum fyrir hönd skólans ásamt skólastjóra og nemendum. 

Að Íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Formaður viðurkenningarráðs verðlaunanna er Gerður Kristný Guðjónsdóttir rithöfundur.

Sjá frétt á vef stjórnarráðsins um verðlaunahafana. 

Til hamingju Dalskóli og Langholtsskóli fyrir verðuga viðurkenningu!