Börn fagna Barnasáttmálanum

Skóli og frístund

""

Út um alla borg eru börn þessa dagana að vinna með ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem verður 31 árs þann 20. nóvember. 

Margt er brallað til að minna á Barnasáttmálann. Í Laugalækjarskóla hafa nemendur sett upp Réttindatré þar sem greinar úr sáttmálanum eru skráð á laufblöðin sem endurnýjuð eru reglulega. Þá unnu nemendur fyrr í vetur með ýmis þemu úr Barnasáttmálanum og bjuggu til kynningarefni sem notað er til að kynna réttindi barna, svo sem rétt þeirra til húsnæðis, nafns og menntunar. 

Í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum hafa börn á frístundaheimilunum jafnan farið í Réttindagöngu á degi Barnasáttmálans og gengið um miðborgina með spjöld til að minna á réttindi sín. Ekkert verður af göngunni í ár, en engu að síður er unnið markvisst með ákvæði Barnasáttmálans þar sem börnin læra hvaða réttindi þau njóta í samfélaginu og veröldinni allri. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sendir frístundabörnunum kveðju í dag þar sem segir m.a.: "Það er mjög mikilvægt að halda upp á afmæli Barnasáttmálans því þannig getið þið vakið athygli á því í leiðinni að öll börn í heiminum eiga að hafa alveg sömu réttindi, alveg sama hvar og hvernig þau búa - og að það eiga líka allir að virða þennan rétt. Því miður er það ekki alltaf gert.

Það er mikilvægt að þið vitið að raddir barna skipta máli, þær þurfa að heyrast því þannig getið þið haft áhrif á borgina okkar og samfélagið – og gert Reykjavík ennþá betri! "

Fögnum Réttindadegi barna 20. nóvember.