Í dag tóku Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og forráðamenn verkalýðshreyfingarinnar skóflustungu að 74 leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag mun byggja á Gelgjutanga í Vogabyggð í Reykjavík.
Þetta eru fyrstu íbúðirnar sem rísa á Gelgjutanga í Vogabyggð 1 en þar er uppbygging að hefjast af fullum krafti.
Bjargi íbúðafélagi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði, íbúðir félagsins eru því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn. Fjölbýlishús Bjargs í Vogabyggð munu verða við Bátavog 1 á lóð sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað til Bjargs á grundvelli húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar.
Nú þegar er Bjarg með yfir 200 íbúðir í útleigu á þremur ólíkum stöðum, að Móavegi í Grafarvogi, að Urðarbrunni í Úlfarsárdal og að Asparskógum á Akranesi.
Þá eru framkvæmdir við á þriðja hundrað nýjar íbúðir komnar vel á veg og hátt í 500 íbúðir eru í hönnunarferli.
Bjarg mun afhenda íbúðir á eftirfarandi stöðum í Reykjavík seinna á þessu ári; að Silfratjörn í Úlfarsárdal, í Hraunbæ í Árbæ og við Hallgerðargötu á Kirkjusandi.
T.ark arkitektar teikna byggingarnar við Bátavog, byggingafélagið Jáverk byggir og Verkfræðistofa Reykjavíkur sér um verkfræðihönnun.
Bjarg er húsnæðis sjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
Í Vogabyggð I munu rísa yfir 420 íbúðir á næstu árum. Þar verður fylgt markmiðum Reykjavíkurborgar um félagslega blöndun húsnæðis.