Barnamenningarhátíð 2020 með breyttu sniði

Skóli og frístund Menning og listir

""

Barnamenningarhátíð í Reykjavík átti að hefjast á þriðjudaginn 21. apríl. Nú er ljóst að ekki verður hægt að halda stóra viðburði fram á sumar.

Þrátt fyrir það vill Reykjavíkurborg að börn fái að njóta eins ríkulegrar barnamenningar í vor og sumar eins og kostur er. Í því skyni hefur verið lögð fram tillaga að fyrirkomulagi viðburða í nafni hátíðarinnar.

Viðburðir sem hafa fengið samþykktar umsóknir um fé til viðburða og/eða eru á dagskrá hátíðarinnar munu fá sveigjanleika til að framkvæma þá í nafni hátíðarinnar á tímabilinu 4. maí til 15. ágúst. Viðburðarhaldarar eru hvattir til að fylgjast ávallt með nýjustu leiðbeiningum Almannavarna og fylgja þeim.

Opnunarviðburður Barnamenningarhátíðar fer fram þann 20. apríl 2021. Þá verður 4. og 5. bekkjar árgöngum grunnskóla borgarinnar boðið að njóta hátíðardagskrár í Hörpu saman.

Lag Barnamenningarhátíðar 2020, samið af Daða Frey og unnið í samstarfi við 4. bekki, mun koma út í maí og verður Daði Freyr með tónleika fyrir 4. bekki á netinu. Lagið fer svo í almenna spilun þegar 4. bekkir hafa fengið að heyra það fyrstir allra.

Ævintýrahöll Barnamenningarhátíðar mun fara fram á Árbæjarsafni þegar samkomubanni fyrir allt að 2000 manns hefur verið aflétt.