Barnabókamessa haldin í fjórða sinn

Skóli og frístund

""

Í morgun hófst tveggja daga Barnabókamessa fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundastarfið í borginni en hún er liður í aðgerðum til að örva áhuga barna og ungmenna á bóklestri.

Bókamessan er haldin í Hörpu og í samstarfi skóla- og frístundasviðs, Félags íslenskra bókaútgefenda og bókmenntaborgarinnar UNESCO.

Á messunni, sem að þessu sinni er haldin er með stífum fjöldatakmörkunum,  er lögð áhersla á að kynna nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur fyrir fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla borgarinnar. Þessum stofnunum hefur verið tryggt viðbótarfjármagn til að kaupa nýjar bækur að eigin vali á messunni fyrir bókasöfn og skólann á sérstöku kynningarverði.

Bókakaup reykvískra skóla hafa nærri tvöfaldast frá árinu 2018 sem skilar sér í mun betra úrvali fyrir börnin af nýjum íslenskum titlum. Þá gefa tölur um útlán sömuleiðis til kynna að aðdráttarafl skólabókasafnanna hafi aukist verulega á undanförnum árum.

Skóla- og frístundaráð samþykkti í liðnum mánuði að veita alls 9 milljónum króna til bókakaupa fyrir skólabókasöfnin á þessu ári.