Átak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi

Mannréttindi

""

Á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og ofbeldisvarnarnefndar í nóvember sl. var samþykkt einróma að fara í vitundarvakningarátak gegn fordómum, áreitni og ofbeldi.

Ráðin leggja til að myndaður verði starfshópur og að næsta vor verði helgað vitundarvakningarátaki á starfsstöðum borgarinnar til þess að starfsfólk og borgarbúar upplifi að öll séu þau velkomin á þjónustustofnanir og starfsstöðvar Reykjavíkurborgar.

Átakið verði unnið með markvissri fræðslu, auglýsingum, samfélagsmiðlum og veggspjöldum á þjónustustofnunum borgarinnar gegn fordómum, áreitni og ofbeldi. Að auki með yfirferð verklagsreglna og starfsaðferða með tilliti til þess að efla starfsfólk í því að takast við krefjandi aðstæður sem upp geta komið.

Markmiði er að gera upplifun þeirra sem fá þjónustu hjá borginni og starfsmanna borgarinnar sem ánægjulegasta.

,,Reykjavíkurborg hefur einsett sér að vera í fararbroddi þegar kemur að vernd og eflingu mannréttinda. Það er okkar sem samfélags að stuðla að fræðslu og meðvitund um mannréttindi minnihlutahópa enda þekking öflugt vopn gegn fordómum. Við höfum séð tilvik þar sem einstaklingar upplifa áreitni og fordóma innan starfsemi borgarinnar og það er með öllu óboðlegt og hér er verið að bregðast við því af festu,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Borgaryfirvöld hafa markvisst unnið að því að auka aðgengi mismunandi hópa í samfélaginu. Fólk á að fá góða þjónustu óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Með því að skýra og endurhanna þjónustu- og verkferla er hægt að gera starfsfólk öruggara gagnvart áskorunum sem upp geta komið og koma í veg fyrir óþarfa hnökra og núning auk þess að auka ánægju með þjónustu og þjónustustofnanir borgarinnar.

Í stafshópi eru fulltrúar frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, íþrótta- og tómstundasviði og mannauðs- og starfsumhverfissviði. Með starfshópnum starfa fulltrúar allra sviða borgarinnar eftir því sem þurfa þykir.

Við vinnu að átakinu verður auk starfsfólks borgarinnar leitað ráðgjafar og samstarfs við hagsmunasamtök og grasrótarfélög, m.a. hjá Samtökum ´78 og Trans Ísland. Einnig verður haft samráð við háskólasamfélagið, Jafnréttisstofu, Fjölmenningarsetur og samráðsnefndir Reykjavíkurborgar.

Taka þarf mið af aðstæðum vegna Covid-19 en starfshópurinn á að skila áfangaskýrslu með tillögum um tilhögun verkefnis og drögum að kostnaðaráætlun í janúar 2021.

Fundargerð með tillögu