Alþjóðadagur umburðarlyndis

Mannlíf Skóli og frístund

""

Dagur umburðarlyndis er mánudaginn 16. nóvember næstkomandi. Á þessum degi er ástæða til að leggja áherslu á hvern og einn íbúa í landinu og rétt hans, óháð bakgrunni.

Það er vert að hugleiða að ef einhver vill gera lítið úr frelsi einstaklingsins til að vera eins og hann, hún eða hán er þá er það brot á alþjóðlegum gildum UNESCO. Deginum hefur verið fagnað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna síðan 1995 að frumkvæði Menningarmálastofnun UNESCO.

Borgarstjóri Varsjár hvatti borgarstjóra Reykjavíkurborgar til að flagga regnbogafánanum í tilefni dagsins og hvetja þeir aðra til að gera slíkt hið sama. Eigum kærleiksríkan dag þar sem einstaklingar og hópar geta tekið sig saman og sýnt umburðarlyndi í orði eða verki. Dagurinn er líka dagur íslenskrar tungu og hvers vegna ekki að safna fallegum íslenskum orðum um jákvæðar hugsanir og athafnir?

Umburðarlyndi er fallegt orð og lýsandi að umbera og lynda við aðra. Eins og segir í íslenskuljóði Þórarins Eldjárns, Á íslensku má alltaf finna svar og orða stórt og smátt þá er hægt að finna mörg samheiti umburðarlyndis s.s. sátt, víðsýni, hleypidómaleysi, samlyndi, biðlund og þolinmæði. Þessi orð notum við í friðsömum samfélögum þar sem gagnkvæm virðing er borin fyrir náunganum, frjálsu vali og þeirri staðreynd að við erum öll ólík.

Í ljósi þess hvað hefur reynt á samfélagið á tímum Covid-19 veirunnar er ekki ónýtt að eiga dag þar sem athyglin er á umburðarlyndi. Það er óhætt að segja að á það hefur reynt í haust og vetur og svo verður áfram. Því er fátt meira við hæfi en að eiga núna dag sem er tileinkaður jákvæðni og samlyndi.

Þetta gæti verið dagur þar sem við kynnum okkur alla liti regnbogans. Stöðu hinsegin fólks, flóttafólks, erlendra verkamanna, fatlaðs fólks, eldra fólks og annarra hópa í samfélaginu. Það sem öllu skiptir er að láta það ekki fram hjá sér fara að dagurinn er alþjóðadagur umburðarlyndis og tækifæri til að umbera fólk og láta sér það lynda.