400 hugmyndir komnar í Hverfið mitt 2020

Umhverfi Skóli og frístund

""

Hugmyndasöfnun fyrir Hverfið mitt sem hófst fyrir viku síðan, þann 4. nóvember sl., hefur gengið afar vel.

Nú eru komnar inn 400 hugmyndir sem er um 100 hugmyndum fleiri en á sama tíma í hugmyndasöfnuninni árið 2019. Ljóst er að borgarbúar hafa mikinn áhuga á að senda inn hugmyndir að góðum verkefnum í hverfunum í ár og eru þær hugmyndir sem þegar eru komnar inn fjölbreyttar og skemmtilegar.

Þetta er í níunda sinn sem hugmyndasöfnunin fer fram og síðan verkefnið fór af stað hafa 787 hugmyndir orðið að veruleika. Má þar nefna aparólur, sjósundsaðstöðu, hreystisvæði, klifurstein, bekki, smábókasafn, rathlaupabraut, vegglistaverk, minigolfvöll og leiktæki .

Verkefninu hefur nú  verið breytt þannig að það nær yfir tvö ár og hugmyndasöfnunin stendur nú yfir í 12 vikur en var áður í þrjár vikur. Fjármagnið sem veitt er til framkvæmda á hugmyndum borgarbúa verður að þessu sinni  850 milljónir króna í stað 450 milljóna áður, þar sem fjármagn tveggja ára er lagt saman. Nú eru íbúar beðnir um að koma með hugmyndir að dýrari og stærri verkefnum en áður.

Fyrsta stig verkefnisins er hugmyndasöfnun en síðan er farið í íbúakosningar um hugmyndirnar.  Með þessu móti gefst tækifæri til að auka samráð við höfunda hugmyndanna og  íbúa í hverfunum, bæði hvað varðar hönnun á verkefnum og framkvæmd þeirra.

Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri, segir ánægjulegt að sjá hversu vel hefur gengið í hugmyndasöfnuninni í ár. „Þetta sýnir okkur að íbúar eru áhugasamir um að bæta hverfin í borginni og þær hugmyndir sem eru komnar inn eru mjög fjölbreyttar. Það verður nú að segjast eins og er að leiktækið Ærslabelgur virðist njóta mikilla vinsælda meðal þátttakenda í ár,“ segir Eiríkur Búi.

Íbúar eru hvattir til að taka þátt og senda inn hugmyndir á hverfidmitt.is. Þar er einnig hægt að skoða allar innsendar hugmyndir og vega þær og meta. Reykjavíkurborg hvetur íbúa til að skoða vel hugmyndir sem koma inn á vefinn og skrifa rök við þær með eða á móti.

Hugsum stórt, verum snjöll og verum með. Sendu inn þína hugmynd á www.hverfidmitt.is