Verkefni sem valdeflir konur af erlendum uppruna fær Evrópumerkið

Velferð Skóli og frístund

""

Verkefnið Stígum saman í áttina að öflugra samfélagi hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts fær Evrópumerkið/European Language Label á Íslandi árið 2019.

Verkefnið miðar að því að bæta íslenskukunnáttu kvenna af erlendum uppruna á vinnustöðum og bjóða upp á starfstengt íslenskunámskeið. Einnig að efla þekkingu þeirra og færni í starfi, fræða um réttindi og skyldur og vinna með sjálfstyrkingu og frumkvæði.

Meðal þess sem verkefnið bauð upp á var svokallað Íslenskuþorp, sem er nýstárleg kennsluaðferð í íslensku sem öðru máli á vegum Háskóla Íslands. Aðferðin byggir á nýjum rannsóknum á því hvernig tungumál lærast í félagslegum samskiptum og hefur reynst afar vel. Meðal annars var boðið upp á íslenskunámskeið fyrir erlent starfsfólk á leikskólum með það að markmiði að styrkja samskipti við börnin, samstarfsfólk og foreldra, efla frumkvæði, gleði og starfsvitund. Verkefnið Stígum saman hefur sýnt fram á að nemendur töluðu meiri íslensku að námskeiði loknu, fengu meira sjálfsöryggi og voru reiðubúnari til að takast á við meiri ábyrgð á sínum vinnustað.

Verkefnastjórar með Stígum saman í áttina að öflugra samfélagi eru Nicole Leigh Mosty og Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir og tóku þær við Evrópumerkinu við hátíðlega athöfn í dag á Erasmus+ í húsnæði Menntaskólans í Kópavogi. Ásamt Guðlaugu og Nicole tóku þær Elísabet Karlsdóttir, forstöðumaður í Gerðubergi og Ana Aleksic, fulltrúi nemenda við merkinu.

Dómnefnd fyrir Evrópumerkið á Íslandi skipuðu Eyjólfur Már Sigurðsson, tilnefndur af Hugvísindasviði HÍ og formaður nefndarinnar, Þórhildur Oddsdóttir, tilnefnd af Samtökum tungumálakennara á Íslandi, og Michael Dal, tilnefndur af Menntavísindasviði HÍ.