Um helgina var frumsýnd í Perlunni sýningin Áróra, sem fjallar um sögu og eðli norðurljósanna og er einn hluti af stærstu náttúrusýningu landsins í Perlunni.
Perlan hefur öðlast nýtt hlutverk
Gunnar Gunnarsson, hugmyndasmiður verkefnisins, segir að í framhaldi af opnun stjörnuvers Perlunnar hafi verið ákveðið að fjárfesta í einni flottustu mynd sem gerð hefur verið um norðurljósin. Áróra er fyrsta 8K norðurljósasýning í stjörnuveri Perlunnar sem er fullkomnasta stjörnuver í heimi. Sýningin er saga um norðurljós, vísindi og list sem er blandað saman til að mynda einstaka upplifun.
„Það er mér mikill heiður sem borgarstjóri að fá að taka þátt í þessu verkefni, sem hefur einkennst öðru fremur af ótrúlega góðu samstarfi hönnuða sýningarinnar og akademíunnar. Að auki fá öll reykvísk skólabörn að heimsækja sýninguna tvisvar á skólagöngunni þannig að þetta er sýning sem mun nýtast vel til fræðslu og miðlunar,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri við opnunina.
Gunnar leiddi verkefnið ásamt Margréti Th Jónsdóttir. Þau fengu fyrirtækið Realisation frá Montreal í Kanada til verksins ásamt einvalaliði einstakra listamanna og má þar nefna tónlistarmennina Ragnhildi Gísladóttur og Pétur Jónsson, rithöfundana Andra Snæ Magnason og Sævar Helga Bragason, sem gengur undir nafninu Stjörnu Sævar og ljósmyndarana Ragnar Th Sigurðsson, Snorra Þór Tryggvason og Babak Tafresi.
„Hópurinn hefur unnið mjög náið að verkefninu og er niðurstaðan magnað verk,“ segir Gunnar. Myndin er framleidd af Perlu norðursins sem rekur starfsemi í Perlunni.
Perla norðursins stendur fyrir metnaðarfullri og nútímalegri náttúrusýningu sem miðlar upplýsingum um náttúru Íslands, sérkenni hennar og þróun, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd og vistfræði Íslands í alþjóðlegu samhengi. Þess má geta að grunnskólarnir í Reykjavík fá ókeypis inn í Perluna fyrir tvo árganga á hverju ári en þar geta reykvísk börn fræðst um náttúru Íslands í sýningarrými á heimsmælikvarða. Stjörnuver Perlunnar tekur 150 manns í sæti og eru stólar sérstaklega gerðir til að tryggja þægindi gesta.
Tilkoma sýningarrýmisins í Perlunni hefur snúið rekstri hennar algjörlega við og hefur Reykjavíkurborg nú umtalsverðar tekjur af byggingunni í stað kostnaðar áður upp á um 150 milljónir króna á ári.
Nánar um náttúru sýningar Perlunnar hér.