Niðurstaða í hugmyndasamkeppni um Orkuhússreit

Skipulagsmál

""

ALARK arkitektar urðu hlutskarpastir í hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu á Orkuhússreit en Reitir og Reykjavíkurborg stóðu fyrir keppninni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands.

Ljósmynd/ f.v. Kristján Ásgeirsson (Alark arkitektar), Hans Orri Kristjánsson (Alark arkitektar), Friðjón Sigurðsson (Reitir) og Jakob E. Líndal (Alark arkitektar). 

Þrjár arkitektastofur, Alark arkitektar, Trípólí og Yrki arkitektar, voru fengnar til að vinna hugmyndir á grundvelli forsagnar fyrir svæðið sem stýrihópur verkefnisins og dómnefnd lögðu til grundvallar. Tillögurnar voru ólíkar og höfðu allar að geyma áhugaverðar hugmyndir sem vert er að skoða nánar í framhaldsvinnu við breytingar á deiliskipulagi. 

Vinningstillaga ALARK gerir ráð fyrir fjórum byggingaráföngum þar sem gert er ráð fyrir 450 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis að hluta. Fyrirkomulag byggðar er 4-9 hæða byggingar sem mynda randbyggð með sólríkum og skjólgóðum inngörðum sem eru að hluta til opnir og tengdir saman með göngu- og hjólastígum þar sem Orkuhúsið fær ákveðinn virðingarsess. 

Í umsögn dómnefndar segir að tillagan uppfylli meginmarkmið samkeppninnar vel og skipulagshugmyndin sé bæði skýr og vel fram sett. Jafnframt segir að tillagan bjóði upp á gott heildaryfirbragð fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi í aðlaðandi og eftirsóknarverðu umhverfi.

Nú þegar dómnefnd hefur lagt mat á framlagðar hugmyndir er gert ráð fyrir að eiginleg skipulagsvinna geti hafist og uppbyggingin útfærð nánar og tímasett. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir á lóðinni geti hafist innan tveggja ára frá því að breyting á deiliskipulagi hefur verið samþykkt.

Í dómnefnd sátu Friðjón Sigurðarson fyrir hönd Reita, Lilja Grétarsdóttir arkitekt fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Helgi Bollason Thóroddsen arkitekt FAÍ fyrir hönd Ariktektafélags Íslands.

Tenglar

Dómnefndarálit