Leikgleði í Arnarbakka

Velferð Menning og listir

""

Bjartsýni og gleði einkenndi opnun Arnarbakka 2-6 í desemberbyrjun.  Arnarbakki hefur fengið andlitslyftingu og í húsnæðinu hafa hreiðrað um sig spennandi hópar sem eru margt að bralla. Þar má nefna Karla í skúrum, hópur handverksmanna og rennismiða, SmíRey vinnustofa fyrir einhverfa karlmenn, Hjólakraft og Kistuna hljóðver.

Karlar í skúrum er félagsskapur karla sem hittast í sameiginlegri vinnuastöðu og geta unnið að sameiginlegum og/eða persónulegum verkefnum. þetta er verkefni til þess að fá karlmenn til að standa upp úr sófanum og hitta aðra karla, fá sér kaffisopa og spjalla. Það er Rauði krossinn sem heldur utan um verkefnið og hægt er að sækja um þátttöku á vefnum.

SmíRey er vinnustofa fyrir einhverfa karlmenn sem velferðarsvið Reykjavíkur rekur. Á vinnustofunni er framleidd leikföng, skrautmunir og tækifærisgjafir.

Hjólakraftur er félag sem heldur námskeið fyrir ungt fólk á öllum aldri, sem langar til að hjóla. Félagið er meðal þeirra sem hefur hreiðrað um sig í Arnarbakka og hægt er að setja sig í samband við þau í gegnum Facebook síðu félagsins.

Hópur handverksmanna og trérennismiða hafa líka komið sér fyrir í Arnarbakka. Fimm félagar í þeim hópi eru með kennsluréttindi og ætla að halda námskeið fyrir fólk á öllum aldri. Svo hafir þú áhuga á rennismíði, að tálga í tré, útskurði, húsgagnasmíði eða almennri trésmíði getur þú bankað upp á hjá þeim í  Arnarbakkanum og skráð þig á næsta námskeið. Þar er líka hægt að kaupa fallegt handverk frá þeim félögum.

Að lokum ber að nefna Óla Gneista Sóleyjarson sem rekur hljóðverið Kistuna. Kistan mun ekki bara bjóða upp á hljóðupptökur heldur líka aðstöðu til að taka upp myndbönd sem hægt verður að streyma beint á netið. Hafir þú áhuga á að vinna í hljóðveri getur þú haft samband með því að senda tölvupóst á  kistan@kistan.is

Við Arnarbakka er líka matvöruverslunin Iceland og Hársnyrtistofan Arnarbakka. Ljóst er að ástæðum til að heimsækja Arnarbakka í Breiðholti hefur fjölgað til muna. Breytingar á Arnarbakka eru unnar í samvinnu við borgina í gegnum Þjónustumiðstöð Breiðholts en tengill þar við verkefnið er Nichole Leigh Mosty.