Icelandair bakhjarl Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2020 í Reykjavík

Menning og listir Mannlíf

""

Icelandair verður einn af bakhjörlum Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Reykjavík árið 2020. Samkomulag þess efnis var undirritað í síðustu viku í bústað sendiherra Íslands í Berlín

Samningurinn var undirritaður af Örnu Schram, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og formanni stjórnar EFA 2020, og Gísla S. Brynjólfssyni, markaðsstjóra Icelandair. Viðstaddir undirritunina voru m.a. Dagur B. Eggertsson, Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Marion Döring, framkvæmdastjóri Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin 2019 voru veitt í Berlín síðastliðna helgi þar sem Ingvar E. Sigurðsson var tilnefndur sem besti evrópski leikarinn. Verðlaunahátíðin, sem segja má að séu hin evrópsku Óskarsverðlaun, fer fram á hverju ári. Annað hvort ár er hún haldin í Berlín, þar sem höfuðstöðvar Evrópsku kvikmyndaakademíunnar eru og hitt árið ferðast hátíðin á milli borga í Evrópu. Á næsta ári verður hátíðin haldin í fyrsta sinn á Íslandi og fer hún fram í Hörpu þann 12.12 2020. Undirbúningur er þegar hafinn, enda er þetta umfangsmikið verkefni sem unnið er í samstarfi íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.

Það að Reykjavík hafi verið valin sem gestgjafi hátíðarinnar sýnir fyrst og fremst styrk íslenskrar kvikmyndagerðar sem hlotið hefur verðskuldaðar viðurkenningar á síðustu árum og áratugum. Hátíðin vekur jafnan alþjóðlega athygli, er sjónvarpað beint og streymt á netinu og því ljóst að Ísland verður í kastljósi evrópska kvikmyndaheimsins að ári. Ráðgert er að samhliða hátíðinni fari fram fjölmargir hliðarviðburðir tengdir evrópskum kvikmyndum og kvikmyndalist.

Fleiri samstarfsaðilar Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2020 verða kynntir er lengra líður á undirbúning hátíðarinnar í Reykjavík.