Göngugötur opna 1. maí

Samgöngur Umhverfi

""

Opnað verður fyrir göngugötur miðborginni í sumar sem hér segir á tímabilinu frá 1. maí til 1. október 2019.

Útfærslan verður með svipuðu sniði og undanfarin ár á meðan unnið er að varanlegu göngusvæði.

· Laugavegur og Bankastræti frá Klapparstíg að Þingholtsstræti.

· Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.

· Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis

· Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.

Göturnar verða opnar fyrir vöruafgreiðslu á milli kl. 07.00 til 11.00 virka daga og kl. 08.00 til 11.00 á laugardögum en annars lokaðar fyrir allri umferð bíla á tímabilinu.

Sautján þúsund ganga eða hjóla Laugaveg á hverjum degi

Reglubundin talning var gerð sumarið 2018 á bæði gangandi og hjólandi umferð á göngugötusvæðinu á Laugavegi sem leiddi í ljós að um sautján þúsund ganga eða hjóla Laugaveg á hverjum degi. Ný könnun verður gerð á þessu ári.

Göngugötur skapa betra verslunarumhverfi og koma til móts við nýjar áskoranir í verslun þar sem upplifun og þjónusta eru stór þáttur. Gangandi vegfarendur fá betri hljóðvist á öllu svæðinu, minni mengun og aðgengi fyrir alla er betrumbætt. Þá verður aðstaða til vörulosunar bætt.

Lífleg miðborg með auknum fjölda gesta er fagnaðarefni en því fylgir óneitanlega aukið álag á hreinsun og viðhald. Rekstraraðilar eru því beðnir um að leggja borginni lið við að halda umhverfinu snyrtilegu í kringum  starfsemi sína, sér í lagi veitingastaðir og kaffihús.

1144 stæði í bílahúsum

1144 bílastæði eru í bílahúsum bílastæðasjóðs í miðborginni, en að auki er búið að taka í notkun 250 stæði í bílakjallara Hafnartorgs og í Hörpu eru 545 stæði – það eru því næg bílastæði í miðborginni.

Varnalegar göngugötur – skref fyrir skref

Borgarstjórn samþykkti þann 4. september 2018 göngugötur allt árið ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs vinnur áfram að forhönnun og undirbúningi á varanlegum göngugötum í samráði við hagsmunaaðila.  Í fyrsta áfanga þessa verkefnis er unnið að forhönnun göngusvæða sem felur í sér útfærslur á hinum ýmsu lausnum til að bæta götuna og umhverfið. Má þar nefna aðgangsstýringar, eitt yfirborð, bætt aðgengi inn í verslanir, dvalarsvæði og götugögn, lýsingu og fjölgun stæða í hliðargötum fyrir hreyfihamlað fólk. Forhönnunin verður lögð fyrir skipulags- og samgönguráð haustið 2019.

Upplýsingar og fróðleikur um göngugötur