Fjölbreyttir viðburðir á Safnanótt

Mannlíf Menning og listir

""

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 8. febrúar 2019 en þá opna 54 söfn á höfuðborgarsvæðinu dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18 til klukkan 23. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin.

Mikið verður um að vera fyrir hugrakka krakka í Grófarhúsi. Borgarbókasafnið heldur Háskaleika fyrir hugrakka krakka. Í Borgarskjalasafni verður boðið upp á ferðir um Dal dauðans. Á Ljósmyndasafninu verður boðið upp á ljósmyndasýningu og DJ Katla mun sjá um tónlist. Einnig verða getraunir og föndur í boði fyrir gesti og gangandi. 

Á Árbæjarsafni verður boðið upp á baðstofustemningu þar sem spilað verður á langspil, kveðist á og sagðar sögur. Farið verður í Draugagöngu fyrir börn og fullorðna og spákona mætir á svæðið. Athugið að fullbókað er í Draugagönguna en í hana þurfti að bóka. Í Sjóminjasafninu verður litli sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur, varðskipið Óðinn verður opið og gestum boðið að prufa sýndarveruleika.

Myntsafn Seðlabanka Íslands sýnir hin umdeildu málverk eftir Gunnlaug Blöndal í listaverkasafni bankans sem komust í fréttirnar á dögunum ásamt því að gestir geta skoðað og lyft gullstöng sem er nú sýnd í fyrsta sinn.

Listasafn Reykjavíkur býður upp á örleiðsagnir um sýningar safnsins, heimsókn í listaverkageymslur og silent diskó. Í Hólavallakirkjugarði verður boðið upp á ljóðalestur, vígalegir víkingar verða í Sögusafninu og kynnast má náttúru Íslands í Perlunni.  

Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu. Frítt verður í sérstakan Safnanæturstrætó á milli allra safnanna.

Fjölbreytt dagskrá verður á 54 söfnum. Kynnið ykkur dagskrá Safnanætur á vetrarhatid.is

Góða skemmtun!