Barn velur ekki að lifa í fátækt

Velferð

""

Velferðarkaffi, opinn fundur velferðarráðs, var haldinn í félagsmiðstöðinni Hraunbæ 105 í morgun. Þar var umfjöllunarefnið börn og fátækt og þróun þjónustu með tilliti til barna.

Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, fjallaði um lífskjör og fátækt barna á Íslandi. Hann fjallaði um viðmið og tekjutengingar þegar horft væri á aðstæður barnafjölskyldna. Kolbeinn telur að til að breyta stöðunni í Reykjavík þurfi að hækka lægstu laun og fjölga félagslegum íbúðum. Hann benti einnig á að taka þyrfti meira tillit til tekna þegar greiða á leikskólagjöld, skólamáltíðir og tómstundir barna.

Soffa Hjördís Ólafsdóttir og Hervör Alma Árnadóttir félagsráðgjafar fjölluðu um reynsla barna af því að búa við fátækt í Reykjavík en þær styðjast við eigin rannsókn sem var gerð á vegum velferðarsviðs þar sem sýnd eru áhrif fátæktar á velferð barna. Mat þeirra er að börn þurfi langtíma aðstoð og tryggja þurfi eftirfylgni í þeim úrræðum sem börnum í tekjulágum fjölskyldum bjóðist.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, talaði um fátæk börn og þjónustu við barnafjölskyldur á sviðinu. Tæplega 800 börn eru að baki foreldra/forráðamanna sem fá fjárhagsaðstoð. Hún fór yfir stöðuna hjá Félagsbústöðum en unnið er markvisst að fjölgun íbúða. Hún nefndi ýmis valdeflandi úrræði á borð við Kvennasmiðju, Karlasmiðju, Grettistak, Bata-skólann og verkefnið TINNU, sem aðstoðar 36 einstæðar mæður og 62 börn þeirra. Árið 2016 var þjónusta við börn forráðamanna með fjárhagsaðstoð til framfærslu 6 mánuði og lengur kortlögð og þar er hægt að kynna sér ýmis úrræði fyrir börn og fjölskyldur þeirra.

Að lokum tóku Gunnar Ingi Gunnarsson og Hildur Oddsdóttir til máls og fjölluðu um fátækt af eigin raun. Gunnar Ingi sagði að ef að eitt barn elst upp við fátækt þá er það einu barni of mikið. Hann fjallaði um skömm, einelti, einangrun og áföll sem fylgja því að alast upp við fátækt. Hann lagði áherslu á að börn upplifa áföll og kvíða vegna streitu foreldra sinna og að börnin kenni sér um ástandið á heimilinu. Hann sagði það á ábyrgð samfélagsins að bæta stöðu fátækra barna.

Hildur Oddsdóttir sagði frá fátækt og niðurlægingu í kjölfar veikinda. Hún er í dag stolt tveggja barna móðir sem hefur náð árangri í PEPP á Íslandi en það er grasrótarheyfing EAPN, fólks sem hefur upplifað fátækt og félagslega einangrun. Hildur fjallaði um reynsluna að því að upplifa skömm vegna aðstæðna sinna og hve þung skref það eru að leita aðstoðar hins opinbera og hjálparsamtaka. Hún leitaði hjálpar barnanna vegna ekki síst þegar kom að fæði, frístund og námi.

Gunnar Ingi fór, í lok síns erindis, með frumsamið ljóð;

Undir stjörnuskini við lækinn þar sem þögnin lifir
Er ásjón við lífið nærtæk og yfirvegun tekur yfir
Heimurinn verður skýrari og lífið sést betur
Hugurinn opnast og sér við hvað hann setur
Sitt líf, sína æfi, langanir og þrá
Hvort það er við hæfi að vilja það sjá 
 
Því margt hefur gerst um ævinnar skeið
Sem skorið hefur sálina og brotið um leið
Hjartað, viljann, líkama og sál
Svo talað sé líka um þjóðernismál
Allt við misstum í hákarlanna gin
Því stjórnin leit á þá sem sinn besta vin
 
En staðreyndin er sú að fátækt sjáanleg er
Í landinu góða sem allir hafa í hjarta sér
Hvað tekur við og hvert stefnir nú
Mun landinn flýja eða verður hann trúr
Þjóð sinni og landi, munu hendur ná saman
Mun þjóðarinnar andi gefa börnunum framann
 
Því framtíðin er þeirra og okkur er skylda
að reisa þjóðina við, þeim til vildar
Eitt veit ég um mig að ég ætla að taka stöðu
Með dóttir minni og verja hennar framtíð með glöðu
því hún skal fá það sem ég ekki sá
Bjarta framtíð, því hún það skilið á
 
Þó að sálin hafi verið brotin og hugur veikur
Verður það að ná árangri minn lífsins leikur
Ég ætla ekki að bugast, skal sigra vandann
Því lífinu oft hugnast að berja niður andann
Börnin eru framtíðin, þau um okkur munu sjá 
Því ættum við að vanda framtíðina sem þau munu fá. 
Höfundur er Gunnar Ingi Gunnarsson

Streymi frá velferðarkaffi um börn og fátækt