Afnám aksturssamninga sparaði yfir 600 milljónir

Samgöngur Stjórnsýsla

""

Umtalsverður sparnaður varð vegna afnáms aksturssamninga hjá Reykjavíkurborg. Þetta kemur fram í svari fjármálaskrifstofu sem lagt var fram í borgarráði í dag.

Svar fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um leigubílakostnað, rekstrar- og stofnkostnað bifreiða, kaup á flugmiðum og meðhöndlun vildarpunkta var lagt fram í borgarráði í dag. Þar kemur m.a. fram að umtalsverður sparnaður varð við afnám aksturssamninga starfsfólks borgarinnar.

Aksturssamningar við starfsfólk borgarinnar voru afnumdir í lok árs 2014. Farið var í aðgerðina í hagræðingarskyni auk þess sem hún var talin mikilvæg til að jafna kynbundinn launamun þar sem karlar í störfum hjá Reykjavíkurborg voru að jafnaði með hærri aksturssamninga en konur.

Aðgerðin sparaði borginni umtalsverða fjármuni til samgangna eða um 700 milljónir. Þeir starfsmenn sem höfðu akstursamninga geta áfram fengið greiddan akstur samkvæmt akstursdagbók og hefur sá kostnaður farið hríðlækkandi frá árinu 2015. Á móti hefur kostnaður við leigubíla vaxið nokkuð og er kostnaðarauki leigubílaaksturs 2015-2018 tæplega 60 milljónir. Þannig hafa sparast meira en 600 milljónir nettó með þeirri einföldu aðgerð að afnema akstursamninga.

Þá kemur fram í svarinu að nokkuð stór hluti af leigubílakostnaði Reykjavíkurborgar er vegna aksturs með skjólstæðinga borgarinnar og á það sérstaklega við um leigubílaútgjöld á velferðarsviði sem er með langhæsta kostnaðinn vegna aksturs með leigubílum.

Yfirmenn starfsstaða og stofnana hjá Reykjavíkurborg ákveða og bera ábyrgð á hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubifreiðar og hafa þeir til umráða margnota kort frá Hreyfli sem er samningsaðili borgarinnar vegna leigubílaaksturs.