Loftslagsmaraþon (Climathon) hófst í dag og er haldið samtímis í 110 borgum í öllum heimsálfum í heilan sólarhring. Reykjavíkurborg tekur þátt í annað sinn, Líf Magneudóttir, formaður Umhverfis- og heilbrigðismálaráðs flutti opnunarávarp.
Loftslagsmaraþonið stendur í heilan sólarhring og snýst um nýsköpun í loftslagsmálum. Þar verður rætt um leiðir og hugmyndir um hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í gegnum hakkaþon fá þátttakendur tækifæri til að upplifa hvernig hugmynd verður að veruleika, hvernig tengslanet myndast og þeir fá æfingu í því að kynna hugmyndir fyrir dómnefnd. Hagsmunaaðilar geta tekið þátt og séð hvernig þeir eiga samleið með Reykjavík og verið um leið hluti af alþjóðlegri hreyfingu.
Hér á Íslandi er viðburðurinn skipulagður af Reykjavíkurborg og Matís ohf. í samvinnu við EIT Climate KIC evrópskri þekkingarmiðstöð sem vinnur að kolefnislausu hagkerfi.
Áskorun Climathon 2018 skiptist í þrjá hluta:
- Hvernig er hægt að gera ferðaþjónustu í Reykjavík sjálfbærari og vistvænni?
- Hvernig er hægt að gera meðferð og nýtingu matvæla í Reykjavík sjálfbærari?
- Hvernig er hægt að efla hringrásarhugsun og hringrásarhagkerfi í samfélagi okkar?
Í því felst t.d. að endurvinna og endurnýta hluti frekar en að farga þeim.