Laugardalslaug er á meðal þeirra sundlauga landsins þar sem aðgangur fyrir fatlaða er til fyrirmyndar. Þetta var niðurstaða í Ársverkefni Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, Sundlaugar okkar allra!
Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar afhenti viðurkenninguna í Laugardalslaug í dag en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Marta Jóhannsdóttir, baðvörður tóku við viðurkenningunni.
Bergur Þorri Benjamínsson þakkar borginni og ferilnefns fyrir þeirri vinnu sem hefur snúið að bættu aðgengi að sundlaugum almennt í borginni með því að innrétta fleiri sérklefa og kaupa lyftur. ,,Nokkuð sem flest sveitarfélög og einnig þeir sem reka baðstaði í einkaeigu mættu taka sér til fyrirmyndar,'' - segir Bergur Þorri Benjamínsson.
Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra fór af stað með aðgengisverkefnið Sundlaugar okkar Allra sumarið 2017 sem var notendaúttekt á sundlaugum á svæði aðildarfélaganna m.t.t. aðgengis fyrir hreyfihamlaða.
Heiti verkefnisins var: Sundlaugar okkar ALLRA! Og er það tilvísun til þeirrar staðreyndar að vegna margvíslegra aðgangshindrana eru fjölmargar sundlaugar landsins ekki allra, því miður. Þær sundlaugar sem komu hvað best út voru: Laugardalslaug ReykjavíkSundlaug Akureyrar, Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar, Ásvallalaug, Salalaug í Kópavogi, og Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum.
Bætt aðgengi í Laugardalslaug
Aðgengi og aðstaða fyrir hreyfihamlað fólk hefur verið bætt í Laugardalslaug að undanförnu. Nýjar lyftur sem auðvelda aðgengi í sjópott og sundlaug eru komnar, auk þess sem settar voru handfestur á sjópott.
Þá hefur búnaður í fjórum skiptiklefum fyrir fatlað fólk verið bættur meðal annars með nýjum sturtustólum, sem eru hjólastólar fyrir baðrými. Nýir sturtustólar eru einnig í almennum baðklefum, auk þess sem komin er ný talía eða færanlegur lyftubúnaður til að auðvelda að komast úr eigin hjólastól yfir í sturtustól. Fyrir framan Laugardalslaug var bílastæðum fyrir hreyfihamlað fólk fjölgað um tvö og eru þau með snjóbræðslu.