Nú stendur yfir Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst það með setningu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í morgun. Þingið er nú haldið í fjórða sinn og 150 manns skráðir til þáttöku.
Borgarstjóri setti þingið klukkan 10 í morgun og strax að því loknu hófst hópavinna með borðstjóra á 11 tungumálum: íslensku, ensku, pólsku, litháísku, rússnesku, tælensku, víetnamísku, tagalog, spænsku, arabísku og kínversku.
Markmiðið með þinginu er að stofna til samtals um málefni erlendra íbúa og stuðla þannig að bættri þjónustu Reykjavíkurborgar, en alls búa um það bil 17.000 innflytjendur í borginni. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar sér um framkvæmd þingsins í samstarfi við Fjölmenningarráð Reykjavíkur.
Alls skráðu 150 þáttakendur sig til þátttöku á þinginu og öðlast þeir rétt til þess að kjósa fulltrúa í Fjölmenningarráð Reykjavíkur.
Umræðuefnin á þinginu eru eftirfarandi:
Aðgengi innflytjenda að vinnumarkaði – að nálgast upplýsingar sem varða réttindi og skyldur, bæði launþega og atvinnurekenda.
Húsnæðismál – aðgengi innflytjenda að viðunandi leiguhúsnæði.
Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar – endurspeglar núverandi fyrirkomulag nægjanlega vel áhrif og þátttöku innflytjenda í samfélaginu?
Ráðgjöf innflytjenda – hvert skal leita?
Niðurstöður þingsins verða notaðar við gerð aðgerðaráætlunar í málefnum innflytjenda sem verið er að vinna að þessa dagana.
Sjá nánar dagskrá Fjölmenningarþings Reykjavíkurborgar 2017