Föstudagurinn 3. mars er Alþjóðlegur dagur villtra dýra (World Wildlife Day) og þá er ekki úr vegi að huga að þeim dýrum sem nú eru á ferli í okkar nánasta umhverfi en það eru á þessum árstíma einkum fuglar.
Eftir snjókomuna miklu um síðustu helgi eru jarðbönn um alla borg og þá eiga fuglarnir erfiðara með að finna sér æti.Þetta á við um stærri fugla eins og grágæsir sem hafa getað bitið gras meira og minna í allan vetur þar sem tíðin hefur verið góð og svo á þettta ekki síst við um smáfuglana sem sækja garða heim.
Fuglar sem sjást í görðum eru langflestir spörfuglar þótt aðrir fuglar geti heimsótt garða eins og máfar, gæsir, ránfuglar eins og smyrillinn og jafnvel rjúpur í útjaðri borgarinnar. Algengustu garðfuglar í Reykjavík á veturna eru skógarþröstur, svartþröstur og stari. Auðnutittlingar eru einnig algengir og sjást gjarnan í hópum, en mismikið er af þeim milli ára. Snjótittlingar sjást í stórum hópum einkum í úthverfum og þegar snjó þekur jörðu en þeim hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum. Hrafnar eru algengir í borginni á veturna og sækja í garða ef þar er fæðu að finna. Sjaldséðari gestir sem sjást árlega eru t.d. músarindill, krossnefur, glókollur, gráþröstur, hettusöngvari, glóbrystingur og silkitoppa.
Að fóðra garðfugla er ekki einungis afar gagnlegt fyrir fuglana þegar snjóalög eru mikil heldur skemmtileg iðja og gefur tækifæri á að sjá fuglana í meira návígi og fleiri í einu en alla jafna. Huga þarf að ýmsu þegar fóðri er komið fyrir m.a. að fóðrið sé aðgengilegt, að það sé á stað sem kettir eigi erfitt með að komast á eða þar sem fuglarnir hafa góða yfirsýn svo þeir geti forðað sér undan köttum og síðan þarf að huga að því hvaða fóður hentar best.
Á vef Fuglaverndar, má fræðast um hvaða fóður henti best fyrir ólíka hópa garðfugla. Til dæmis vilja auðnutittlingar og snjótittlingur einkum korn og fræ en meðan snjótittlingarnir éta einkum beint af jörðinni vilja auðnutittlingar frekar éta úr hangandi fóðurdöllum. Skógarþrestir, svartþrestir og starar sem á sumrin éta einkum skordýr og önnur smádýr eru sólgnir í feitmeti og ávexti. Slíku er best komið fyrir á fóðurpalli eða með því að hengja upp í tré. Ávextir laða einnig að sjaldgæfari gesti eins og silkitoppur og hettusöngvara. Hrafninn er sólginn í feitmeti og aðra kjötafganga.
Fóðurgjafir þurfa að vera þrifalegar og fjarlægja þarf úrgang sem fuglarnir nýta ekki t.d. þegar kjöt- eða fituafgangar eru settir út. Ef fuglum er gefið á opnum svæðum t.d. lóðum fjölbýlishúsa eða almenningsgörðum skal gæta þess að hreinsa vel eftir fóðurgjöfina og velja frekar fóður eins og korn eða fræ sem er lyktarlítið og er minna líklegra til að mygla eða úldna. Forðast skal að fóðra stóra fugla eins og gæsir eða máfa á stöðum sem eru í alfaraleið (t.d. úti á götum eða göngustígum) eða þar sem það veldur ónæði (t.d. við vinnustaði, skólalóðir eða þjónustu) og skynsamlegt er að ræða við nágranna um slíkar fóðurgjafir inni á einkalóðum.