Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hélt kynningarfund fimmtudaginn 7. desember 2017 í Hlöðunni við Gufunesbæ vegna fyrsta áfanga skipulags í Gufunesi.
Kynningarfundur var um tillögu að nýju skipulagi í Gufunesi, sem á að stuðla að fjölbreyttari byggð og starfsemi og styðja við og styrkja Grafarvog sem hverfisheild. Á svæðinu er einkum gert ráð fyrir starfsemi á sviði afþreyingar- og kvikmyndaiðnaðar og þjónustu tengdri slíkri starfsemi. Einnig er gert ráð fyrir íbúðarbyggð og verslun og þjónustu.
Gert ráð fyrir, í framhaldi af fundinum, að vinna tillöguna og kynningargögn áfram. Gera má ráð fyrir að fljótlega á næsta ári verði tillaga formlega lögð fram til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði sem tekur þá ákvörðun um hvort og þá hvenær eigi að auglýsa tillögu að breyttri landnotkun í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og nýtt deiliskipulag fyrir byggð í Gufunesi.
Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs opnaði fundinn, Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags kynnti drög að deiliskipulagi að fyrsta áfanga uppbyggingar og breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur og Orri Steinarsson arkitekt kynnti drög að deiliskipulagi nýrrar byggðar í Gufunesi. Björn Ingi Edvardsson verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa skrifaði fundargerð.
Fundurinn var haldinn í Hlöðunni Gufunesbæ við Gufunesveg og var ágætlega sóttur. Opnað var fyrir fyrirspurnir og einnig skoðuðu fundagestir módel og myndir af þessum drögum að deiliskipulagi.
Björn Axelsson skipulagsstjóri, Þorsteinn Rúnar Hermannsson samgöngustjóri, Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Björgvin Rafn Sigurðarson lögfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði og Óli Jón Hertervig deildarstjóri Eignaumsýslu tóku einnig til máls á fundinum og svöruðu fyrirspurnum.
Tengill
Kynning: Gufunes - drög að breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur
Kynning: Gufunes - drög að deiliskipulagi
Skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags
Gufunes Breytt landnotkun atvinnusvæðis. Þróun blandaðrar byggðar