Í dag var 20 almennum félagslegum leiguíbúðum úthlutað hjá Reykjavíkurborg. Alls hefur því 190 íbúðum verið úthlutað á árinu 2017. Fara þarf aftur til ársins 2010 til þess að sjá sambærilegar tölur en þá var 193 íbúðum úthlutað.
Vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur umsækjendum sem bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði fjölgað talsvert á síðustu misserum. Í ljósi þess var ákveðið að setja af stað sérstakt átaksverkefni varðandi kaup á félagslegu húsnæði. Reykjavíkurborg festi því kaup á 75 íbúðum seinni part árs 2017 til að nýta sem bráðabirgðahúsnæði til viðbótar við þær 58 íbúðir sem Félagsbústaðir hafa keypt á árinu. Auk þeirra íbúða sem keyptar hafa verið á árinu hefur Reykjavíkurborg tekið til notkunar 14 herbergi í Víðinesi fyrir heimilislaust fólk. Alls hefur því nýjum íbúðum og herbergjum fjölgað um 147 á árinu.
Félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík eru alls 2.059 og hefur þeim fjölgað um 242 á síðustu þremur árum. Búist er við enn frekari fjölgun á næstu árum þar sem Félagsbústaðir hafa tryggt sér kauprétt á nýjum íbúðum hjá Búseta og leigufélaginu Bjargi sem koma til úthlutunar á næstu árum. Markmiðið með því að kaupa bráðabirgðahúsnæði til viðbótar við það húsnæði sem Félagsbústaðir kaupa til varanlegrar notkunar er að brúa bil þar til hægt verður að úthluta nýjum eignum á vegum Félagsbústaða.