Yfir 70% íbúa á höfuðborgarsvæðinu vilja taka upp gistináttagjald

Umhverfi Mannlíf

""
Yfirgnæfandi meirihluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu er jákvæður gagnvart ferðamönnum og meirihluti íbúa telur að framboð á afþreyingu og þjónustu í borginni hafi aukist með auknum fjölda ferðamanna samkvæmt niðurstöðum nýrrar viðhorfskönnunar sem Höfuðborgarstofa lét gera.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu halda áfram að vera almennt jákvæðir gagnvart ferðamönnum milli ára samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar sem var gerð fyrir Höfuðborgarstofu í apríl. Á sama tíma hefur orðið mikil aukning á fjölgun ferðamanna á landinu en á fyrstu fjórum mánuðum ársins fjölgaði þeim um 35% milli ára samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.
 
Langflestir eru stoltir af því að búa í borg sem tekur vel á móti ferðamönnum og meirihluti telur íbúa gestrisna gagnvart ferðamönnum. Ferðamenn fá líka góða einkunn en langflestir telja þá vinsamlega í samskiptum sínum við heimamenn. Meirihluti svaraði því til að jákvæðar hliðar ferðaþjónustu vegi þyngra en neikvæðar og að aukinn fjöldi ferðamanna hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðið. Hins vegar eru flestir þeirrar skoðunar að tekjur Reykjavíkurborgar af ferðamönnum séu ekki nægilegar miðað við þann kostnað sem af þeim hlýst og vill meirihluti íbúa taka upp gistináttagjald.
 
Könnunin var lögð fyrir íbúa í öllum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu og gerð dagana 11. - 26. apríl 2016. Þar kemur fram að alls 94,5% íbúa eru ýmist í meðallagi, frekar eða mjög jákvæð gagnvart ferðamönnum. Aðeins  5,5% prósent segjast neikvæð gagnvart þeim. Þetta er aðeins lægra hlutfall en á síðasta ári þegar það var 97,6%  og rúmlega tvö prósent sögðust neikvæð gagnvart ferðamönnum. Ekki er marktækur munur á viðhorfi til ferðamanna eftir hverfum borgarinnar. 
 
Næstum 84% svarenda telja aukinn fjölda ferðamanna hafa fremur eða mjög jákvæð efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma telja nærri átta af hverjum tíu íbúum að tekjur Reykjavíkurborgar af ferðamönnum séu ekki nægilega miklar miðað við þann kostnað sem af þeim hlýst.
 
Þá eru 72,6% íbúa höfuðborgarsvæðisins fremur eða mjög hlynnt því að taka upp gistináttagjald sem renni til sveitarfélaga en minna en einn af hverjum tíu er á móti því. 
 
Meirihluti svarenda eða 68% telur jákvæðar hliðar ferðaþjónustu vega þyngra en neikvæðar. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru almennt mjög stoltir af því að búa í borg sem tekur vel á móti ferðamönnum eða næstum 86%. Þá telja níu af hverjum tíu á höfuðborgarsvæðinu íbúa vera í meðallagi, fremur eða mjög gestrisna. 
 
Meirihluti íbúa höfuðborgarsvæðisins telur að framboð á afþreyingu og þjónustu í borginni hafi aukist með auknum fjölda ferðamanna. 96%  segja framboð veitingastaða hafa aukist og tæplega níu af hverjum tíu segja framboð kaffihúsa hafa aukist.  Hátt í 74% segja verslun hafa eflst, rúmlega 65% segja afþreyingu hafa aukist en 60% segja framboð menningar hafa aukist. Athygli vekur að á sama tíma og 73% íbúa höfuðborgarsvæðisins telja verslun hafa eflst með auknum fjölda ferðamanna eru 43% sem segja að fjölbreytni verslana hafi minnkað og 31% segja hana hafa aukist.
 
Nálægt níu af hverju tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins telja fjölda ferðamanna vera hæfilegan eða of lítinn í sínu hverfi yfir sumarmánuðina og 95% yfir vetrarmánuðina. Rúmlega helmingur íbúa miðborgarinnar telur fjöldann hæfilegan á sumrin og rúmlega 75% telja fjöldann hæfilegan yfir vetrarmánuðina sem getur ekki talist annað en jákvætt ef horft er til mikils vaxtar í ferðaþjónustu á liðnum misserum.

Þrír af hverjum fjórum svarendum segjast aldrei hafa orðið fyrir ónæði frá ferðamönnum við heimili sitt og 18% segjast sjaldan hafa orðið fyrir ónæði.  Íbúar miðborgarinnar verða eðli málsins samkvæmt fyrir meira ónæði frá ferðamönnum en íbúar annarra hverfa en rúmlega einn af hverjum tíu íbúum þar segist oft hafa orðið fyrir ónæði samanborið við 2,5% allra svarenda. Engu að síður segjast rösklega 44% íbúa miðborgarinnar aldrei hafa orðið fyrir ónæði frá ferðamönnum og fjórðungur til viðbótar segir það hafa gerst sjaldan.
 
Níu af hverjum tíu íbúum höfuðborgarinnar telja ferðamenn vinsamlega, en athygli vekur að aðeins fleiri íbúar miðborgarinnar telja þá vinsamlega eða tæplega 95% . 
 
Tveir þriðji hluti íbúa miðborgarinnar telur fjölgun ferðamanna engu hafa breytt um hversu hrein miðborgin er. 17% að hún sé hreinni og svipað hlutfall að hún sé óhreinni. Þegar öll hverfi eru tekin segja slétt 63% allra svarenda að fjölgun ferðamanna hafi engu breytt um hreinleika miðborgarinnar, 15% að hún sé hreinni og 22% að hún sé óhreinni.
 
Þetta er í annað sinn sem könnunin er gerð fyrir Höfuðborgarstofu en fyrirtækið Maskína sá um framkvæmd og úrvinnslu hennar. Hún fjallar um viðhorf til ferðaþjónustu og ferðamanna og er lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Svarendur voru 1786. Tekið var 600 manna lagskipt slembiúrtak í hverfi 101 og 250 manna úrtak úr 15 hverfum, 103,104,105,107,108, 109,110,111,112,113 auk nágrannasveitarfélaganna, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.