Reykjavíkurborg býður til vinnustofu, örfyrirlestra og sýningar um uppbyggingu leiguíbúða á vegum Almenna íbúðafélagsins, laugardaginn 15. október frá kl. 10 – 14 í Ráðhúsinu.
Reykjavíkurborg býður til vinnustofu/ workshop vegna uppbyggingar þúsund nýrra leiguíbúða í borginni í samvinnu við Almenna íbúðafélagið sem er félag í eigu ASÍ og BSRB. Markmið félagsins er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga.
Vinnustofan verður haldin í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, laugardaginn 15. október frá kl. 10 – 14 og hefur um 40 einstaklingum verið boðið að taka þátt í henni.
Spurt verður í vinnustofununni hvað geri íbúð góða, hvar hún eigi að vera, hverskonar samfélag sé æskilegt að myndist á svæðinu og hverju fólk vilji deila með nágrönnum sínum. Markmið með vinnustofunnni er að safna efni og hugmyndum til áframhaldandi vinnu vegna uppbyggingar leiguíbúða Almenna íbúðafélagsins.
Sýning og fyrirlestrar fyrir almenning
Örfyrirlestrar verða einnig haldnir á klukkutíma fresti frá kl. 10-14 en þá flytja Ragna Benedkita Garðarsdóttir félagssálfræðingur, Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt, Hjördís Sóley Sigurðardóttir og Hildur Ýr Ottósdóttir arkitekt, Páll Líndal umhverfissálfræðingur og Drífa Kristín Þrastardóttir verkefnisstjóri húsverndar Borgarsögusafns. Þau munu varpa ljósi á efnið út frá ýmsum sjónarhornum og faggreinum.
Fyrirlestrarnir standa öllum gestum sem koma í Tjarnarsalinn til boð ásamt sýningu sem er gagnvirk því hún felur í sér spurningakönnun þar sem fólk vegur og metur mikilvæga þætti sem varða leiguíbúðir til framtíðar.
Mikilvægt samstarf
Verkalýðshreyfingin og Reykjavíkurborg hafa verið lykilsamstarfsaðilar þegar hefur komið að átaki í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og má þar nefna verkamannabústaðina við Hringbraut og Breiðholti ásamt íbúðum í Ártúnsholti og víðar. Áratugir eru síðan verkalýðshreyfingin hefur komið með jafn beinum og afgerandi hætti að uppbyggingarverkefnum í borginni og í jafn nánu samstarfi við borgaryfirvöld. Mikilvægt er að vel takist til um þessa uppbyggingu sem er framundan.
Tengill
Eldri frétt: Leiguhúsnæði