Viltu deila frystikistu eða rafmagnsbíl með nágrönnum?

Umhverfi Skipulagsmál

""

Könnun fyrir gangandi vegfarendur stendur nú yfir í Ráðhúsinu i tilefni af mótun leiguíbúða til framtíðar sem Reykjavíkurborg og Almenna íbúðafélagið vinnur að. 

Reykjavíkurborg mun á næstu árum úthluta Almenna íbúðafélaginu lóðum fyrir uppbyggingu 1.00 almennra leiguíbúða þar af 150 á þessu ári. Almenna íbúðafélagið er húsnæðissjálfseignastofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða. Markmið félagsins er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga.

Til að tryggja góða hönnun íbúðanna er lögð áhersla á skapandi og hugvitsamlegar lausnir og hagkvæmar aðferðir í því skyni að lækka byggingakosnað.

Reykjavíkurborg bauð af þessu tilefni til vinnustofu, örfyrirlestra og sýningar um uppbyggingu leiguíbúða á vegum Almenna íbúðafélagsins, laugardaginn 15. október í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Almenningur getur, eftir helgina, tekið þátt í spurningakönnun sem var gerð af þessu tilefni.

Spurt var í vinnustofununni hvað geri íbúð góða, hvar hún eigi að vera, hverskonar samfélag sé æskilegt að myndist á svæðinu og hverju fólk vilji deila með nágrönnum sínum. Markmið er að safna efni og hugmyndum til áframhaldandi vinnu vegna uppbyggingar leiguíbúða Almenna íbúðafélagsins.

Leitað til almennings

Spurningakönnun var hönnuð á spjöld af þessu tilefni þar sem gangandi vegfarendur geta lýst skoðun sinni á völdum atriðum með því að lýsa því hversu mikilvæg þau eru. Þessi könnun verður aðgengileg áfram nokkra daga í Ráðhúsinu eftir helgina. 

Í hverni samfélagi viltu búa? Hverju viltu deila með nágrönnum þínum? Frystukistu, þvottavél, rafmagnsbíl, barnapössun, aukaherbergi? Samkomusal, máltíðum, verkstæði, reiðhjólum?

Hvar á íbúðin að vera? Í göngufjarlægð frá leikskóla, grunnskóla, menntaskóla, matvöruverslun, sundlaug eða grænu útivistarsvæði? Hversu mikilvægir eru góðir göngustígar, hjólastígar, hversu mikilvæg er nálægð við almenningssamgöngur, miðbæ Reykjavíkur, stofnbrautir?

Hvað er góð íbúð? Hvað á að vera í útirýminu? Garður, svalir, leikaðstaða, grill, bekki og borð, endurvinnslustöð fyrir úrgang? Hvernig á hún að vera innandyra? Hve mörg herbergi, hversu gott flæði, opin og björt rými, skjól og næði fyrir áreiti?

Mikilvægt samstarf

Verkalýðshreyfingin og Reykjavíkurborg hafa verið lykilsamstarfsaðilar þegar hefur komið að átaki í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og má þar nefna verkamannabústaðina við Hringbraut og Breiðholti ásamt íbúðum í Ártúnsholti og víðar. Áratugir eru síðan verkalýðshreyfingin hefur komið með jafn beinum og afgerandi hætti að uppbyggingarverkefnum í borginni og í jafn nánu samstarfi við borgaryfirvöld. Mikilvægt er að vel takist til um þessa uppbyggingu sem er framundan.

Tenglar

Vinnustofur 

Eldri frétt