Sumar vafrakökur eru nauðsynlegar til þess að vefsvæðið virki eðlilega og eru þær sjálfkrafa virkar. Hægt er að fá nánari upplýsingar um þessar vefkökur í vefkökustefnu okkar.
Stillingar
Kökur í þessum flokki gera vefsíðunni kleift að geyma stillingar sem stjórna því hvernig vefsíðan lítur út eða hegðar sér fyrir hvern notanda. Virkni gæti m.a. boðið upp á að birta ákveðin gjaldmiðil, staðsetningu, tungumál eða litaþema.
Tölfræði
Tölfræðilegar vafrakökur hjálpa okkur að bæta heildarupplifun gesta á vefsvæðinu með því að safna upplýsingum um notkun.
Reykjavíkurborg notar Siteimprove til slíks auk þess að greina vefnotkun, telja heimsóknir á síðuna.
Aðrar kökur
Vafrakökur í þessum flokki hefur enn ekki verið komið fyrir í viðeigandi flokk og tilgangur þeirra gæti verið óljós eins og er.
Tröllahvannir eru stórvaxnar plöntur sem teljast ágengar í íslenskri náttúru. Þær eru jafnframt varasamar fyrir fólk því safinn í stilkum og blöðum getur valdið brunasárum. Reykjavíkurborg vill takmarka útbreiðslu tröllahvanna í borginni og verður unnið samkvæmt aðgerðaáætlun þess efnis í sumar.
Tröllahvannir eða risahvannir eru stórvaxnar, fjölærar plöntur af sveipjurtaætt. Þær líkjast öðrum hvönnum t.d. ætihvönn og geithvönn en eru yfirleitt mun stærri og stórgerðari. Tröllahvannir hafa stórar blómmyndanir og eru oft glæsilegar plöntur. Þess vegna hafa þær lengi verið vinsælar garðlöntur.
Tröllahvannir hafa dreift sér hratt um borgarland Reykjavíkur undanfarið og er það áhyggjuefni. Þær eru þekktar erlendis fyrir að vera ágengar og bola öðrum gróðri burt. Vegna stærðar sinnar geta þær myndað mjög þétt gróðurbelti. Þær eru skilgreindar sem framandi, ágengar tegundir hérlendis sem geta ógnað öðrum gróðursamfélögum og því er óheimilt að flytja þær til landsins.
Af tröllahvönnum stafar einnig slysahætta því safinn í stönglum og blöðum þeirra er eitraður. Í honum eru efni sem virkjast í sólarljósi og geta valdið alvarlegum bruna á húð og skilið eftir sig varanleg ör. Einnig getur safinn valdið blindu ef hann berst í augu.
Tegundir tröllahvanna
Í Reykjavík hafa fundist þrjár tegundir af tröllahvönnum sem allar eru af ættkvíslinni Heracleum.
Bjarnarkló (Heracleum mantegazzianum) er algengust og einnig varasömust því hún nær mestri stærð. Plönturnar geta orðið yfir þrír metrar á hæð og stöngullinn allt að 100 mm í þvermál. Alla jafna er einungis einn blómstöngull. Blöðin eru afar stórgerð og tvísagtennt og því yfirleitt auðþekkjanleg. Magn plöntusafa í stönglum og blöðum er oft mjög mikið og því hættan alvarlegum brunasárum töluverð.
Tröllakló (Heracleum persicum) er einnig stórvaxin en fíngerðari en bjarnarklóin og auk þess yfirleitt með nokkra blómstöngla. Hún er algeng í görðum en virðist lítið dreifa sér þrátt fyrir að mynda fleiri blómsveipi að jafnaði.
Húnakló (Heracleum sphondylium) er minnst og fíngerðust af tröllahvönnunum. Hún getur náð 2-3 m hæð en er alla jafna mun minni. Hún er ekki eins algeng í borgarlandinu en þar sem hún finnst dreifir hún sér mjög hratt.
Borgin vill draga úr útbreiðslu tröllahvanna
Reykjavíkurborg vill draga úr frekari útbreiðslu tröllahvanna í borgarlandinu og fylgja þar með ráðleggingum Umhverfisráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar. Nú er unnið að því að kortleggja útbreiðsluna og er öllum ábendingum um plöntur, hvort sem er í borgarlandi eða á einkalóðum, vel tekið. Einnig hyggst borgin fjarlægja plöntur úr borgarlandi og verða skólalóðir, leiksvæði og vinsæl útivistarsvæði sett í forgang. Íbúar sem hafa tröllahvannir í garði sínum eru beðnir að fylgjast vel með hvort þær séu að sá sér í nálæga garða og mælt er með að klippa blómmyndanir áður en þær mynda fræ ef ekki er farið í að fjarlægja plönturnar alveg.
Hvernig er best að fjarlægja tröllahvannir ?
Best er að klippa plönturnar varlega niður og grafa upp með rót. Fara þarf afar varlega við meðhöndlun þeirra. Mikilvægt er að vera með hanska og í fötum sem hylja líkamann. Hlífðargleraugu eða andlitshlíf er einnig æskileg og bráðnauðsynleg ef plantan er mjög stór og/eða ef notast er við sláttuorf. Forðast skal að velja sólríkan dag því sólarljós eykur hættuna á bruna ef plöntusafinn berst á húð. Mikilvægt er að fylgjast vel með vaxtarstað plöntunnar næstu mánuði og ár eftir að plantan er fjarlægð.
Ef óskað er frekari upplýsinga um tröllahvannir í Reykjavík eða ef vilji er til að tilkynna um vaxtarstaði þeirra skal leita til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, deildar náttúru og garða.