Þrír nýir íbúakjarnar fyrir fólk með þroskahömlun verða opnaðir á þessu ári og því næsta. Þetta er til viðbótar við fyrri samþykktir borgarráðs og alls verða því sex íbúakjarnar opnaðir í Reykjavík á einu ári.
Biðlistar eftir sértækum húsnæðisúrræðum hafa lengst og í upphafi árs biðu 135 einstaklingar með þroskahömlun eða skyldar raskanir eftir húsnæði.
Til að mæta brýnustu þörf verður opnað tímabundið úrræði í september fyrir fimm einstaklinga með fjölfötlun sem jafnframt verða í forgangi fyrir úthlutun þegar nýir íbúakjarnar að Austurbrún og Kambavaði verða teknir í notkun í lok árs 2017.
Íbúakjarni fyrir sex einstaklinga með einhverfu verður opnaður í janúar 2017 en áður var samþykkt að opna einn slíkan íbúakjarna í Þorláksgeisla í lok árs 2016.
Þriðji íbúakjarninn verður fyrir sex einstaklinga með blandaðir fatlanir og hegðunarerfiðleika en hann kemst í gagnið haustið 2017. Þessi hópur hefur minni þjónustuþarfir en þurfa engu að síður að eiga þess kost að flytja úr foreldrahúsum og í sjálfstæða búsetu með stuðningi.