Reykjavíkurborg gerir miklar og strangar kröfur um framleiðslu og lagningu malbiks.
Í útboðsgögnum Reykjavíkurborgar eins og annarra sveitarfélaga og Vegagerðarinnar eru gerðar gæðakröfur um malbikun gatna. Gæðakröfurnar eru sambærilegar við það sem gerist á Norðurlöndunum og í Evrópu.
Gerðar eru strangar kröfur um um framleiðslu á malbiki, hitastig á malbiki við útlögn og um framkvæmd útlagnar á malbiki. Þar er stuðst við leiðbeiningar frá Vegagerðinni en einnig kröfur samkvæmt þeim stöðlum sem gilda um framleiðslu steinefnis í malbiki og framleiðslu malbiks (staðlar Íst 75:2013 og Íst 76:2013 ). Þá er stuðst við leiðbeiningar og staðla annarra landa.
Sama á við um kröfur til biks og annarra íblöndunarefna sem fara í malbikið. Þær kröfur eru sambærilegar við það sem gerist erlendis.
Verktakar sem vinna fyrir Reykjavíkurborg eru skyldir til að hafa gæðakerfi og starfa samkvæmt því. Þeir taka sýni og skila upplýsingum um framleiðsluna til verkkaupa sem fer yfir þau en auk þess er starfrækt gæðaeftirlit verktaka á verkstað hverju sinni. Þar að auki er Reykjavíkurborg með eftirlitsmenn sem fylgjast með hverri útlögn og með öllum þáttum sem máli skipta við framkvæmd malbikunar, þar með er talinn hiti malbiks við útlögn.
Hitastig malbiks skal samkvæmt gögnum aldrei vera lægra en 140°c í vél við útlögn en skal vera hærra ef lofthiti er lágur og vindkæling töluverð. Ekki er lagt malbik á vegum Reykjavíkurborgar ef þessar kröfur eru ekki uppfylltar.
Kröfur sem gerðar eru til steinefna í malbikinu eru sambærilegar við það sem gerist erlendis miðað við umferðarmagn á götum. Borgin notar t.d. norskt steinefni í götur sem er það sama og hefur verið notað m.a. í flugvöllinn. Þetta steinefni er notað á umferðarþyngstu göturnar í borginni. Það er dýrt og ekki forsvaranlegt að nota það í götur þar sem umferð er lítil og þar sem öldrun götu ræður meiru um endingu en styrkur steinefna.