Skapandi samráð með hverfisskipulagi

Samgöngur Umhverfi

""
Samráð við íbúa skipar stóran sess í hverfisskipulagi sem er ný gerð af deiliskipulagi fyrir gróin hverfi og fastmótaða byggð.  Í Reykjavík var í vetur unnið að hverfisskipulagi í fjórum borgarhlutum: Árbæ, Breiðholti, Háaleiti – Bústöðum og Hlíðum. Verkefnið er komið vel á veg og verður afrakstur vinnunnar kynntur borgarbúum á sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Borgarstjórinn í Reykjavík opnar sýninguna formlega á fimmtudag kl. 13.00 og verður hún opin til sunnudags. Á fimmtudag er opið til kl. 18.00, á föstudag 9.00 – 14.00 og á laugardag og sunnudag verður opið 13.00 – 17.00.  Skoða viðburðinn á Facebook

Nemendur gerðu líkön af hverfunum

Á sýningunni verður stillt upp öllum þeim líkönum sem notuð voru við skipulagsvinnuna.  Þau gengdu mikilvægu hlutverki í hugmyndavinnu og samráði við íbúa á fundum í vetur. Það voru nemendur í 13 grunnskólum sem komu að gerð líkananna og þeir tóku einnig þátt í hugmyndavinnu.
 
Ævar Harðarson verkefnisstjóri hverfisskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði segir að markmið þess sé að gera hverfi borgarinnar sjálfbærari og bæta gæði hins manngerða umhverfis.  Í samráði við íbúa er beitt aðferð sem gefist hefur mjög vel og kallað er Skapandi samráð, en það er byggt á erlendri fyrirmynd (Planning for Real). Íbúar skrá óskir og hugmyndir og þeim er haldið saman með skiplegum hætti.  „Líkönin af hverfunum og sérsniðið miðakerfi virka saman á þann hátt að íbúar sem vilja koma á framfæri ábendingum velja miða við hæfi sem þeir leggja á þann stað á líkaninu sem ábendingin varðar.  Starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs skrá síðan niðurstöðurnar í gagnagrunn,“ segir Ævar.
 
Með hverfisskipulagi er sett fram heildstæð skipulagsáætlun fyrir mörg minni svæði og skipulag í grónum hverfum endurskoðað. Ævar segir að eldra skipulag sé að mörgu leyti orðið úrelt og því sé vinna við hverfisskipulagið löngu tímabær.  Vinna við hverfiskipulagið byggir á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 -2030 og ákvæðum í skipulagslögum.

Nær helmingur borgarbúa í borgarhlutunum fjórum.

Fyrstu borgarhlutarnir sem fá hverfisskipulag eru Árbæ, Breiðholt, Háaleiti – Bústaðir og Hlíðar.  Í þessum borgarhlutum eru fjórtán hverfi og þar búa 56 þúsund íbúar eða nærri helmingur borgarbúa.   
 
Í þessum borgarhlutum hafa í vetur verið haldnir íbúafundir, verkefnið verið kynnt og kallað eftir hugmyndum og áliti íbúa. Þau drög að framtíðarsýn í hverfiskipulag sem kynnt er í Ráðhúsi Reykjavíkur er afrakstur þess samráðs og vinnu ráðgjafa hverfisskipulagsins, sem ráðnir voru eftir hæfnisval áður en verkefnið hófst, en það er þverfaglegur ráðgjafahópur með arkitektum, landslagsarkitektum, skipulagsfræðingum og verkfræðingum.
 
Liður í samráði við íbúa var að setja saman rýnihópa á aldrinum 25 til 85 ára og sá Gallup um að setja þá saman.  Hóparnir voru fengnir til að gefa álit sitt á framkomnum skipulagshugmyndum til að bæta þær áður en þær voru kynntar á íbúafundum.  Næsti liður í samráði voru síðan fjölmargir íbúafundir úti í hverfunum þar sem íbúum var boðið til samtals um drög að framtíðarsýn.  Á þessum íbúafundum var beitt aðferðum Skapandi samráðs eins og áður segir og tryggja þannig að að allir ættu möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri.

Næstu skref í hverfunum fjórum

Ævar segir að í sumar verði unnið úr ábendingum íbúa jafnframt því sem vinna hefst við tillögugerð fyrir hverfin í Árbæ, Breiðholti, Háaleiti – Bústöðum og Hlíðum.  Á haustmánuðum verða drög að tillögum að hverfiskipulagi kynntar á íbúafundum.  Samhliða verður leitað til svokallaðra „eldhuga“ úti í hverfunum, en það eru sérstaklega áhugasamir íbúar sem  eru tilbúnir til þess að vinna með starfsmönnum hverfiskipulags við að leggja mat á tillögur og forgangsraða verkefnum.  Stefnt er að því að tillögur að hverfiskipulagi fyrir áðurnefnda borgarhluta verði tilbúið til kynningar í byrjun árs 2017. 
 

Ferlið í hnotskurn

Ævar segir mikilvægt að fara skipulega í þessa vinnu og hann dregur saman ferlið:  „Vegna þess hversu hverfiskipulag fyrir heila borga er umfangsmikið og flókið er verkefninu skipt í fjölmarga verkáfanga og verkþætti.  Hver verkáfangi tekur til eins borgarhluta sem síðan er skipt upp í nokkra minni verkþætti,“ segir hann.  „Fyrsti verkþáttur í hverju hverfiskipulagi er verklýsing þar sem því sem á að fara að gera í skipulagsvinnunni er lýst.   Næsti verkþáttur er stefnumótun og framtíðarsýn fyrir hvert hverfi.  Þegar drög að  stefnumótun og framtíðarsýn liggur fyrir er hún kynnt í skipulögðu samráðsferli.  Þar á eftir tekur við tillögu- og skilmálagerð, en síðasti verkþátturinn er kynningar- og samþykktarferli.  Miðað er við að hvert hverfisskipulag taki um 17 mánuði í vinnslu frá því vinna við verklýsingu hefst og þangað til skipulagsáætlunin hefur verið samþykkt af skipulagsyfirvöldum.“
 

En hvað með hin hverfin?

Þegar vinnu við hverfisskipulag í áðurnefndum fjórum borghlutum er lokið er stefnt að því að hefja vinnu við þá sex borgarhluta sem eftir eru en þeir eru  Grafarvogur, Grafarholt, Kjalarnes, Laugardalur,  Miðborgin og Vesturbær.  Ævar segir að ekki hafi verið tekið ákvörðun um í hvað röð hverfiskipulagi verður háttað í þessum borgarhlutum en hann gerir ráð fyrir að sú vinna hefjist eftir mitt ár 2018.