Ríkir hugarfar sköpunar í Reykjavík?

Umhverfi Skipulagsmál

""

Spennandi fundur um sköpun og borgarsamfélag verður haldinn á Kjarvalsstöðum 15. nóvember kl. 20. Allir velkomnir

Getur Reykjavík orðið meira spennandi fyrir fólk í skapandi greinum og aðdráttarafl?  Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir fundaröðinni BORGIN – HEIMKYNNI OKKAR um þróun og mótun borgarinnar. Næsti fundur fjallar um sköpunarkraftinn og verður haldinn þriðjudaginn 15. nóvember kl. 20 á Kjarvalsstöðum.

Hugtakið sköpun (e. creativity, creative city) hefur notið vinsælda undanfarin ár í borgarumræðu. Andstæðan við skapandi borg gæti verið einsleit borg. Eitt einkenni umbreytingar birtist þegar borg gengur sköpuninni á hönd og skapandi greinar á ýmsum sviðum menningar breyta þekktum byggingum í svæði fyrir listir og menningu. Nýlegt dæmi um það er Marshall húsið við Grandargarð sem var síldarbræðsla í hálfa öld en verður menningar- og myndlistarmiðstöð.

Á fundinum verður hin skapandi borg skoðuð út frá nokkrum sjónarhornum og spurningum, t.d. hvernig eru svæði borgarinnar, torg, byggingar og garðar nýtt sem rými til skapandi athafna? Hvernig skapast töfrandi andrúmsloft á viðburðum og iðandi mannlíf á götum borgarinnar? Gegna stjórnvöld mikilvægu hlutverki við að virkja sköpunarkraft fólksins í borginni og veita þau þeim efnahagslega afkomu? Leggja þau áherslu á fjölbreytta upplifun fyrir gesti og heimafólk?

Skapandi greinar í Reykjavík

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er dæmi um viðburð sem þar sem andi sköpunar svífur yfir vötnum og áhersla er bæði á sköpunargáfu heimafólks og gesta. Einnig má nefna ýmsa gjörninga, kvikmyndahátíðina RIFF, Hönnunarmars og Food and Fun sem góð dæmi. Að öðrum kosti teljast skapandi greinar m.a. arkitektúr, myndlist, hönnun, tíska, kvikmyndun, tónlist, sviðslistir, bókaútgáfa, hugbúnaður, matargerðarlist, útvarp, sjónvarp og leikjahönnun fyrir tölvur og önnur tæki. Nefna má að fyrsta setur skapandi greina í Reykjavík var opnað við Hlemm árið 2014. Þá er Hönnunarmiðstöð í Aðalstræti svo dæmi séu nefnd.

Markmið fundaraðarinnar BORGIN – HEIMKYNNI OKKAR er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. U.þ.b. 1000 gestir á 12 fundum hafa sótt fundaröðina frá því hún hófst haustið 2014, bæði fagfólk og áhugafólk um skipulag og umhverfi borgarinnar og nú er spurt: Ríkir hugarfar sköpunar í Reykjavík?

Fram koma, ásamt Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs, Sigrún Inga Hrólfsdóttir deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands, Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar og Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og verkefnisstjóri borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg.

Spennandi spurningar á fundinum

Reykjavík hefur þegar verið bókmenntaborg UNESCO í fimm ár og vinnur starfsfólk borgarinnar markvisst skapandi starf í nafni hennar. En spurningin núna er m.a. hvort Reykjavík eigi að skapa sér frekari sérstöðu meðal skapandi borga eða styðja alla metnaðarfulla viðleitni til sköpunar jafnt og láta það koma fram í stefnumótun og skipulagi?

Uppbygging borgarhverfa og þétting byggðar veltur upp tækifærum og áskorunum í þessum efnum. Nefna má að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur ber að stuðla að skapandi og ögrandi umhverfi og auka veg allra skapandi greina við mótun umhverfis.

Það eru ekki bara miðborgir sem geta verið skapandi heldur einnig hverfin eins og til dæmis Breiðholtið þar sem list í opinberu rými hefur breiðst út t.a.m. á blokkarveggjum. Ef til vill laðar það að sér skapandi fólk sem heldur áfram að móta andrúmsloft, umhverfi og menningu staðarins. Segja má að tilraun standi yfir til að gera Breiðholt að skapandi stað.

Hægt er að spyrja margra annarra mikilvægra spurninga um Reykjavík sem skapand afl m.a. um samspil byggingararfsins og sköpunarkraftsins, hvað það var sem t.d. olli því að Gamla höfnin og Grandinn lifnuðu við m.a fyrir tilstuðlan nýsköpun og matarmenningar? Einnig mætti fjalla um Reykjavík sem skapandi áfangastaðar ferðamanna og hvernig borgaryfirvöld gætu tileinkað sér skapandi hugsun í samstarfi við borgarbúa og atvinnulíf.

Áfram hugsað um efnið

Ekki verður hægt að svara öllum spurningum en fundurinn er haldinn í kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum og hefst kl. 20 þriðjudaginn 15. nóvember og eru allir velkomnir og heitt á könnunni. Ekki er boðið upp á átök milli andstæðra sjónarmiða heldur felst aðferðin á fundinum í því að greina og opna fyrir möguleika og að fólk haldi áfram að hugsa og tala um efnið eftir fundina.

Fundurinn er sá tólfti í röðunni en sjá má flesta fyrri fundi á netslóðinni netsamfelag.is

Tengill

Fundir í röðinni á netsamfelag.is

Auglýsing um fundinn 15. nóv

Boð á fundinn á facebook