Til að kynna þá vinnu sem sem framundan er við hverfisskipulag Háaleitis og Bústaða er boðað til opins íbúafundar með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra miðvikudaginn 27. janúar kl. 20. Fundurinn verður haldinn í Breiðagerðisskóla.
Undirbúningur að nýju hverfisskipulagi fyrir borgarhlutann Háaleiti og Bústaði er að hefjast. Hverfisskipulag er ný áætlun sem gerð verður fyrir öll hverfi Reykjavíkur og er því er ætlað að auðvelda skipulag, áætlanagerð og hvetja fólk til að hafa aukin áhrif á sitt hverfi.
Auk hverfisskipulags verður fjallað um skipulag Fossvogsdalsins á fundinum, framkvæmdir í borgarhlutanum og sagt frá niðurstöðum þjónustu- og viðhorfskönnunar sem gerð var meðal íbúa.
Ævar Harðarson arkitekt og verkefnisstjóri hverfisskipulags hjá Reykjavíkurborg segir að töluverð endurnýjun og uppbygging sé fyrirhuguð í borgarhlutanum næsta áratug. Víða standast deiliskipulagsáætlanir ekki kröfur sem gerðar eru til nútíma skipulags og því sé brýnt að vinna heildstætt skipulag fyrir borgarhlutann. Með gerð hverfisskipulags verður til leiðarvísir fyrir hverfin og tæki fyrir íbúa til að hafa bein áhrif á þróun síns umhverfis.
Nær 15 þúsund manns búa í borgarhlutanum Háaleiti – Bústöðum
Uppbygging í borgarhlutanum hófst á fjórða áratug síðustu aldar. Hann tekur til um 430 hektara lands og þar búa í dag um 14.300 íbúar. Atvinnustarfsemi er einkar fjölskrúðug í borgarhlutanum enda eru innan hans Kringlan, Múlahverfi, Suðurlandsbraut og Grensásvegur með fjölmennum vinnustöðum. Helstu einkenni svæðisins er fastmótuð íbúðahverfi afmörkuð af stórum umferðargötum sem bæði umlykja borgarhlutann og ganga þvert í gegnum hann og skipta honum upp í hverfi og minni hverfiseiningar.
Borgarhlutinn liggur miðlægt á höfuðborgarsvæðinu og afmarkast í vestri af Kringlumýrarbraut, í norðri af götunum Suðurlandsbraut, Grensásvegi og Miklubraut, í austri af Reykjanesbraut og í suðri liggur borgarhlutinn að Kópavogi í Fossvogsdal.
Hverfisskipulag borgarhlutans mun taka mið af fjórum skilgreindum hverfum:
- Háaleiti – Múlar,
- Kringlan, Hvassaleiti, Leiti og Gerði,
- Bústaða- og Smáíbúðahverfi
- Fossvogshverfi - Blesugróf
Á íbúafundinum verður farið yfir hvernig staðið verður að vinnunni við hverfisskipulagið þannig að íbúar og hagsmunaaðilar geti áttað sig á hvernig þeir geti haft áhrif á mótun tillögunnar. Þegar fullmótuð tillaga að hverfiskipulagi liggur fyrir verður hún send í kynningu og auglýsingu eins og skipulagsreglur segja til um og síðan tekin til umfjöllunar og endanlegrar samþykktar hjá borgaryfirvöldum. Stefnt er að því að vinnu við hverfisskipulag Háaleitis og Bústaða ljúki í haust.
Verkefnisstjórar hverfisskipulagsins verða að sjálfsögðu á íbúafundinum og einnig verður hægt að hitta þá fimmtudaginn 28. janúar, kl. 15 - 17, í þjónustumiðstöðinni í Efstaleiti, sem flutt er í Útvarpshúsið og föstudaginn 29. janúar kl. 15 - 17 í Borgarbókasafninu í Kringlunni.