Morgunverðufundur Náum áttum hópsins, sem verður haldinn miðvikudaginn 26. október frá 08.15-10.00 á Grand hóteli, fjallar að þessu sinni um mikilvægi stuðnings og fræðslu til foreldra.
Foreldra- og forvarnasamtökin Vímulaus æska halda um þessar mundir uppá 30 ára starfsafmæli sitt. Að því tilefni er fundarefni Náum áttum hópsins tileinkað málefnum foreldra sérstaklega.
Að styðja við foreldrahlutverkið er heiti fyrirlesturs Unu Maríu Óskarsdóttur, lýðheilsufræðings. Guðrún Ágústsdóttir, fjölskylduráðgjafi, talar einnig um stuðning við foreldra en í kjölfarið segja foreldrar frá sinni reynslu. Að lokum talar Sigríður Birna Valsdóttir leiklistar- og fjölskyldumeðferðarfræðingur, um hinsegin börn og unglinga.
Fundarstjóri er Guðni R Björnsson, verkefnastjóri Vímulausrar æsku í Foreldrahúsi. Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir en nauðsynlegt er að fólk skrái þátttöku sína á heimasíðunni www.naumattum.is. Þátttökugjald er 2.400 krónur en innifalið í því er morgunverður.
Þennan sama dag, 26. október, verður opið hús í Foreldrahúsi Suðurlandsbraut 50 frá kl. 16 - 19 í tilefni tímamótanna.