Reykjavíkurborg tekur þátt í Evrópsku Nýtnivikunni í fimmta sinn dagana 19.-27. nóvember næstkomandi. Að þessu sinni verður athyglinni beint að umbúðaaustri og leitað leiða til að draga úr umfangi umbúða.
Einn af styrkleikum Nýtnivikunnar er hversu margir aðilar hafa staðið saman að henni í gegnum tíðina og hefur hún vakið sífellt meiri athygli með hverju ári. Vikan er tilvalin vettvangur til að skapa umræðu og flagga því sem vel er gert og vekja athygli á því hvað mætti betur fara í málefnum tengdum neyslu og úrgangi.
Allir hvattir til að taka þátt
Margir ólíkir aðilar koma að vikunni í ár og bjóða m.a. upp á viðburði sem tengdir eru nýtni, úrgangsmálum, innkaupum og umhverfismennt. Hæst ber málþing Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar, Umbúðir hvenær nauðsyn og hvenær sóun?
Landvernd vinnur með völdum vinnustöðum borgarinnar að því að lágmarka matarsóun og borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í umbúðaleik á Facebook síðu Reykjavíkurborgar. Býttifatamarkaður verður alla vikuna í Borgarbókasafninu í Kringlunni og hjá Leiðbeiningarstöð heimilanna er hægt að fá ýmis góð ráð um nýtni, http://www.leidbeiningastod.is/.
Reykjavíkurborg hefur haldið utan um dagskrá Nýtniviku og hvetur sem flesta til að leggja þessum mikilvæga málaflokki lið og skipuleggja viðburð í tengslum við vikuna. Áhugasamir aðilar geta haft samband í gegnum netfangið: nytnivika@reykjavik.is
Fjölnota er svarið
Á Íslandi er talið að hver einstaklingur noti um 200 poka á ári, það er um 16 pokar á viku fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu. Meðalnotkunartími burðarpoka er talin vera um 25 mínútur áður en þeir enda í urðun með öðrum blönduðum úrgangi, í endurvinnslu eða úti í náttúrunni. Það er einungis brot á umbúðaaustri samtímans. Hægt er að sporna við myndun umbúðaúrgangs með einföldum hætti og geta allir lagt sitt af mörkum til að draga úr notkun umbúða. Þetta má meðal annars gera með því að nota fjölnota umbúðir. Hægt er að nota fjölnota kaffimál í stað einnota, töskur og taupoka í stað einnota burðarpoka, velja vörur án umbúða eða í umfangsminni umbúðum, endurnota t.d. krukkur, box o.fl. sem fellur til.
Umbúðaaustur mengunarvaldur
Umbúðir eru stór hluti af neysluvenjum nútímans og flestar þeirra enda sem úrgangur eftir að þær hafa þjónað tilgangi sínum. Talið er að 157 kg af umbúðum falli til á hvern íbúa í Evrópu á hverju ári. Um 40% af öllu plasti sem framleitt er í heiminum eru umbúðir. Þótt burðarpoki úr plasti sé einungis notaður einu sinni í örfáar mínútur getur hann verið í umhverfinu í hundruðir ára, brotnað niður í örplast sem síðan getur borist í jarðveg, vötn og sjó. Örplastið er skaðlegt fyrir lífríki, fæðukeðju og vistkerfi. Talið er að um 8% allra plastpoka endi í hafinu en það jafngildir um fimm milljónum plastpoka á Íslandi árlega.
Nýtnivikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur. Hún er haldin árlega með ýmsum atburðum sem stuðla að vitundavakningu um sjálfbæra auðlinda- og úrgangsstjórnun. Áhersla er því lögð á að draga úr, endurnota og endurvinna.