Borgarstjóri fór ásamt borgarfulltrúum í ferð um Háaleiti Bústaði í dag til að kynna sér ýmsar framkvæmdir í hverfinu og stofnanir borgarinnar.
Fyrst var farið í Bjarkahlíð við Bústaðaveg en þar er verið að gera húsið upp sem er í eigu borgarinnar. Hópurinn ræddi við byggingaraðila og fengu upplýsingar um húsið og framkvæmdina. Þegar endurgerð er lokið verður tekin ákvörðun um hvað verður gert við húsið.l
Hesthús Fáks við Breiðholtsbrautina var næsti áfangastaður en þar hefur verið samþykkt skipulagslýsing og unnið er að gerð deiliskipulags á svæðinu.
Í Víkinni, félagsheimili íþróttafélagsins Víkings, tóku forsvarsmenn félagsins á móti hópnum og var gengið um svæðið og skoðaður gerfigrasvöllurinnsem og rætt um málefni félagsins.
Leiðin lá því næst um Fossvogsdalinn í Vigdísarlund þar sem borgarstjóri hitti Birgi H. Sigurðsson, skipulagsstjóra Kópavogsbæjar, og ræddu þeir um skipulagsmál sveitafélaganna, en nú stendur yfir vinna við nýtt skipulag Fossvogsdals í samstarfi sveitafélaganna tveggja.
Ferðinni lauk svo við Sléttuveg þar sem Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs og Hrafnistu hitti hópinn og kynnti fyrir þeim byggingaráform. Reisa á þjónustumiðstöð, öryggis- og þjónustuíbúðir og hjúkrunarheimili við Sléttuveg.