19% grunnskólabarna hjóla í skólann á vorin

Umhverfi Mannlíf

""
Hlutfall þeirra sem keyra í vinnuna er svipað að vetri og vori. 19% grunnskólabarna hjóla í skólann að vori til. Fótgangandi skipta yfir á hjólað á vorin.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar gerir reglulega könnun á ferðavenjum Reykvíkinga, annars vegar á tveggja ára fresti í samstarfi við Vegagerðina og hins vegar á eigin vegum þar sem spurt er tveggja spurninga: „Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann síðast þegar það/þau sóttu skóla?“ og „Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana?“


Þessar spurningar hafa verið lagðar fyrir árlega á haustmisseri en nú voru þær í fyrsta sinn einnig lagðar fyrir að vori og má greina nokkrar breytingar. Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar en um var að ræða netkönnun  sem gerð var dagana 18. maí til 1. júní 2016. Úrtakið var 1619 Reykvíkingar, 18 ára eða eldri  og var þátttökuhlutfall var 61,1%


Markmið Reykjavíkurborgar er að hlutdeild bílaumferðar á götum borgarinnar verði 58% árið 2030, almenningssamgangna 12% og gangandi og hjólandi 30% í samræmi við Aðalskipulags Reykjavíkur, stefnu borgarinnar um eflingu almenningssamgangna, hjólreiðaáætlun og loftslagsstefnu. Reykjavíkurborg vinnur að því að tryggja öruggar, skilvirkar, þægilegar og vistvænar samgöngur fyrir alla.

Hvernig fór barnið í grunnskólann?

Spurt var „Með hvaða hætti fór barnið þitt/börnin þín í grunnskólann síðast þegar það/þau sóttu skóla?“


Niðurstöðurnar leiddu í ljós að 54% barna fara fótgangandi í skólann, 21% með einkabíl, 19% á hjóli, 4% með strætó/skólabíl og 2% með öðrum hætti. Hjólabörnum fjölgar verulega frá því sem var í nóvember sl. en færri fara með strætó og fótgangandi. Jafnmörgum börnum og áður er skutlað í skólann.


Fyrri mælingar hafa bent til þessa að börnum í Mið- og Vesturbæ sé skutlað oftar í skólann en í öðrum hverfum, ef til vill vegna þess að hjá mörgum þeirra er lengra í skólann en í öðrum hverfum. Það dregur nokkuð úr þessum mun frá því í nóvember þó enn sé hlutfall barna sem skutlað er í skólann hæst þar.

Hvernig fóru fullorðnir í vinnuna?

„Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana?“


65% fullorðinna fara á bíl sem bílstjórar í vinnu eða skóla á morgnanna, 10% fara gangandi, 10% með strætó, 8% á hjóli og 7% sem farþegar. Það eru jafnmargir og fóru á bíl yfir veturinn en fleiri fara með strætó eða hjóla og færri ganga.


Hlutfall hjólandi og fótgangandi fullorðinna er langmest í Mið- og Vesturbæ en þar fara 24% fótgangandi en 14% hjólandi. Þeir sem aka sjálfir til vinnu eða skóla eru flestir í Árbæ og Grafarholti eða 79%% og í Grafarvogi og á Kjalarnesi eða 75%.
 
Draga má þá ályktun í heild að í samanburði við vetrarkannanir þá sé tilhneigingin á þá vegu að þeir sem ganga til vinnu eða skóla á haustmisseri skipta gjarnan yfir á hjól þegar það fer að vora.
 
Tengill