Samstæðan rekin með 11,1 milljarða hagnaði

Fjármál

""

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 samþykktur í borgarstjórn.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um 11.106 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 8.120 mkr. Rekstrarniðurstaðan er því 2.986 mkr. betri en gert var ráð fyrir. Helstu ástæður þessa má rekja til lækkandi vaxtagjalda Orkuveitu Reykjavíkur vegna lækkunar skulda fyrirtækisins og hækkandi eignaverðs hjá Félagsbústöðum. Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem var undirritaður og lagður fram til seinni umræðu í borgarstjórn í dag.



Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 2,8 milljarða. Helstu ástæður þess skýrast af ytra umhverfi. Launakostnaður jókst um tæpan milljarð á árinu, gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga fór rúmlega milljarð fram úr áætlun og reiknað var með meiri  tekjum af sölu á byggingarétti sem varð rúmum milljarði lægri en áætlað var.  



Niðurgreiðsla skulda samstæðunnar gengur vel og samkvæmt áætlun. Skuldsetningarhlutfall borgarinnar er 104%, en lögboðið viðmið eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga er 150%. Séu skuldir Orkuveitu Reykjavíkur taldar til skulda samstæðu borgarinnar hefur skuldahlutfallið lækkað úr 327% árið 2010 í 216%. Skuldir Orkuveitunnar eru því enn miklar en niðurgreiðsla gengur hratt.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar styrkist á milli ára og fer úr 40% í 43%. Arðsemi eigin fjár var 5,8% á síðasta ári.



Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði eftir síðari umræðu að það þurfi að passa að málaflokkarnir fari ekki fram úr heimildum fjárhagsáætlunar. Um leið sé ýmislegt jákvætt í ársreikningnum. „Kjarasamningarnir kostuðu náttúrlega mikið og við finnum svolítið fyrir því. Framundan eru líka mikilvægar vikur í kjaramálum þjóðarinnar þannig að launakostnaðarliðurinn er síst að fara að minnka,“ segir Dagur.  



Staða A-hluta Reykjavíkurborgar er sterk og er skuldsetningarhlutfall A-hlutans samkvæmt sveitarstjórnarlögum 77% og helst óbreytt á milli ára. Eiginfjárhlutfall A-hluta er áfram sterkt eða 57,6%.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar