Þeir sem eru tilnefndir til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár ætla að deila reynslu sinni á opinni morgunráðstefnu sem haldin verður þriðjudaginn 27. október í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ráðstefnan mun fara fram á ensku.
Þema verðlaunanna í ár er minnkun gróðurhúsalofttegunda. Falla verðlaunin að þessu sinni í skaut því fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem gefið hefur gott fordæmi með þróun vöru eða uppfinningar eða öðrum skapandi aðgerðum sem stuðla að minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til framtíðar. Verðlaunin sjálf verða afhent á vegum Norðurlandaráðs á þriðjudagskvöld.
Reykjavíkurborg hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í fyrra og er gestgjafi ráðstefnunnar. Á ráðstefnunni gefst tækifæri til að skyggnast bak við tjöldin hjá þeim sem skara framúr í þessum málum og fá að vita hvað það er sem skiptir máli og læra af reynslu annarra.
Ráðstefnan verður haldin í næstu viku, þriðjudaginn 27. október í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ráðstefnugestum er boðið í morgunkaffi frá kl. 8.00, en ráðstefnan hefst kl. 8.30 með ávarpi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.
Ráðstefnan mun fara fram á ensku. Erindi sem flutt verða eru:
- Reykjavíkurborg, handhafi Náttúru og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014 - Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir frá hvers vegna Reykjavíkurborg fékk verðlaunin og hverju þau breyttu.
- City Bikes - Aleksander Krajisnik.
- Carbon Recycling International - Benedikt Sefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar.
- Orkufyrirtækið SEV - Hákun Djurhuus, forstjóri.
- Uppsala Klimatprotokoll - Björn Sigurdson, loftslagssérfræðingur og Maria Gardfjell, fyrsti varaborgarstjóri
- Kaffibrennslan Löfbergs - Lars Appelqvist
- Orkuveita Reykjavíkur - Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri.
- Gomore ApS - Matias Møl Dalsgaard, forstjóri
- Piggybaggy - Harri Paloheimo, forstjóri.
- Norges Gruppen - Halvard Hauer.
- Evangelísk- lútherska kirkjan í Finnlandi - Ilkka Sipiläinen, ritari samfélagslegrar ábyrgðar og Ulla Ala-Ketola, sérfræðingur í kynningarmálum frá umhverfisstofnun Finnlands
Í lok ráðstefnunnar taka fyrirlesarar þátt í pallborðsumræðum. Fundarstjóri verður Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur.
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru sett á laggirnar til að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndunum. Þau hafa verið veitt frá árinu 1995 og eru afhent við sama tækifæri og önnur verðlaun Norðurlandaráðs.
Tengt efni:
- Upplýsingasíða Ráðstefnunnar : Dæmisögur af minni losun gróðurhúsalofttegunda - Dagskrá
- Skráning á ráðstefnuna / þátttaka er ókeypis