Hækkun stöðubrotsgjalda

Samgöngur

""

Þann 1. ágúst tekur gildi hækkun stöðubrotsgjalda. Það á við um þá sem leggja í stæði fatlaðs fólks og á gangstétt, við gangbraut, vegamót og á þeim stöðum sem merktir eru að bannað sé að leggja. Ekki verður hækkun á stöðumælasektum.

Stöðvunarbrotagjald vegna j-liðar 1. mgr. 28. gr. , sbr. b-lið 1. mgr. 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, lagningar bifreiðar í stæði fyrir hreyfihamlaða án heimildar, verður 20.000 kr.

Stöðvunarbrotagjald vegna annarra stöðubrota, sbr. a-e-lið 1. mgr. 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að  undanskildum j-lið 1. mgr. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 108. gr. verður 10.000 kr. Þetta eru stöðubrotsgjöld t.d. vegna lagningar bifreiðar á gangstétt, gangbraut, vegamótum, í stæði fyrir hópbifreiðar eða þar sem umferðarmerki gefur til kynna bann við lagningu/stöðvun bifreiðar.

Veittur er 1.100 kr. afsláttur ef greitt er í bankastofnun eða heimabanka innan þriggja virkra daga frá álagningu gjaldsins.

Gjald sem er ógreitt 14 dögum frá álagningu gjaldsins tekur 50% hækkunum og sé það ógreitt 28 dögum eftir álagningu tekur það 100% hækkun.

Breytingin tók gildi með auglýsingu nr. 568/2015 um breytingu á auglýsingu um gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg, nr. 798/2012.

 

Heimasíða Bílastæðasjóðs.