Virðum götulokanir - tökum strætó niður í bæ á Menningarnótt

Mannlíf Samgöngur

""

Á Menningarnótt breytist miðborgin í eina allsherjar göngugötu þegar götum er lokað fyrir akandi umferð eins og kemur fram á hátíðarkortinu í ár. Lokanirnar eru til að tryggja öryggi bæði gangandi og akandi vegfarenda og auðvelda aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs. 

Það eru rúmlega 40 stofnanir, félagasamtök og sérfræðingar sem koma að útfærslu lokana og öryggismála á Menningarnótt í þeim tilgangi að almenningur geti skemmt sér áhyggjulaus á stærstu hátíð ársins. Brýnt er að hátíðargestir virði lokanir og sýni samferðafólki sínu tillitsemi.

Kort yfir götulokanir.

Frítt í Strætó

Á Menningarnótt er frítt í strætó og eru borgarbúar hvattir til skilja bílinn eftir heima og fara með strætó niður í bæ þar sem miðborgin er lokuð fyrir allri bílaumferð. Strætó mun aka Gömlu Hringbrautina gegnt BSÍ ásamt því að aka að og frá Hlemmi, þar sem venjulegt leiðarkerfi í miðbænum verður tekið úr gildi. Hefðbundið leiðakerfi breytist að lokinni flugaeldasýningu eða eftir klukkan 23:00 þegar allir vagnar verða settir í að flytja fólk úr miðbænum (gegnt BSÍ) og út í hverfi. Síðustu ferðir verða eknar klukkan 01:00.

Nýtt: Ferjað frá bílastæðum

Þeir sem fara á bíl í bæinn eru hvattir til að leggja bílnum þar sem eru stór og rúmgóð stæði svo sem við skóla, stóra vinnustaði eða íþróttamannvirki nálægt biðskýli og taka strætó í bæinn. Einnig er hægt að leggja í bílastæði við Borgartún og Kirkjusand og mun strætó ferja fólk þaðan upp á planið við Hallgrímskirkju og til baka, á milli klukkan 13:00 – 00:00. Strætó stoppar hjá Íslandsbanka við Kirkjusand og á biðstöð við Borgartún 33. Þetta er ný þjónusta sem hefur ekki verið boðið upp á áður. Bílastæðahúsið Höfðatorgi verður opið á Menningarnótt til klukkan 01:00 og hægt er að leggja víðsvegar úti á Granda og við Háskóla Íslands.