Annað tölublað ársins 2014 af Borgarsýn er komið út en blaðið kom fyrst út haustið 2011. Um er að ræða 9. tbl. af Borgarsýn frá upphafi en blaðið kemur að jafnaði út 3 - 4 sinnum á ári. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar gefur Borgarsýn út og er tilgangurinn með útgáfunni fyrst og fremst að upplýsa borgarbúa um þau verkefni sem eru efst á baugi umhverfis - og skipulagsmála hverju sinni. Hægt er að nálgast rafræn eintök á heimasíðu borgarinnar www.reykjavik.is.
Skoða Borgarsýn 9. tbl. (PDF).
Í þetta sinn fjallar Borgarsýn m.a. um nýtt rammaskipulag fyrir Vogabyggð sem er gott dæmi um þróunar- og þéttingarreit í borginni fyrir vistvæna byggð. Vogabyggð er fyrsta skrefið í uppbyggingu alls svæðisins í kringum Elliðaárvog sem taka mun stakkaskiptum á næstu árum en þar er gert ráð fyrir alls 3.600 íbúðum þegar borgarhlutinn verður fullbyggður. Jafnframt er í blaðinu sagt frá Hönnunarmars sem var í mars sl., en þá tók starfsfólk Reykjavíkurborgar á móti áhugasömum borgarbúum um hönnun Laugavegar í Around Iceland Laugavegi 18b. Þar gafst fólki kostur á að kynna sér forsögn sem gerð hefur verið um endurhönnunina og fleiri gögn um Laugaveginn og ræða við starfsfólk borgarinnar. Gestum og gangandi bauðst einnig að koma sínum hugmyndum um hönnun götunnar á framfæri. Framundan er endurhönnun götunnar en áhersla er lögð á að hún verði unnin í góðu samráði við borgarbúa og alla sem láta sig varða þessa helstu menningar-, mannlífs-, og verslunargötu Reykjavíkur.
Í Borgarsýn er sagt frá Hlíðarendabyggð, en framkvæmdir við 600 íbúða hverfi þar hefjast að öllum líkindum næsta haust, en uppbygging á svæðinu hefur verið í bígerð frá árinu 2005. Útfærsla deiliskipulags Hlíðarenda byggir á vinningstillögu Graeme Massie í samkeppni um nýtt skipulag fyrir Vatnsmýrina frá árinu 2008. Nýtt Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 hefur verið gefið út á bók af Bókaútgáfunni Crymogeu en hönnuður er Vinnustofa Atla Hilmarssonar og er bókin um 350 blaðsíður með 250 kortum og skýringarmyndum. Aðalskipulagið er afrakstur áralangrar vinnu við framtíðarmótun borgarinnar. Það er leiðarvísir fyrir þróun hennar á komandi árum og setur fram bindandi stefnu um skipulagsákvarðanir innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Markmið þess er að skapa borg þar sem gott er að búa og starfa.
Umhverfis – og skipulagssvið Reykjavíkurborgar vonast til þess að Borgarsýn upplýsi borgarbúa um áherslur varðandi þróun og ásýnd borgarinnar hverju sinni enda viðfangsefni sem koma öllum við. Kynningarritið Borgarsýn er gefið út í 500 eintökum og er einnig aðgengilegt á vefnum. Ritstjórar Borgarsýnar eru Björn Ingi Edvardsson, Elínborg Ragnarsdóttir, Gunnar Hersveinn og Halldóra Hrólfsdóttir.