Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks

Velferð

""

Reykjavíkurborg hefur samþykkt stefnu í málefnum utangarðsfólks.  Stefnan er unnin í samvinnu við fjölmarga einstaklinga, samtök og stofnanir sem vinna með utangarðsfólk. Reykjavíkurborg hefur lagt metnað í að sinna vel þjónustuhlutverki sem höfuðborg alls konar íbúa og er þjónusta við þennan hóp þar engin undantekning.

Þarfir fólks sem eru utangarðs breytast sífellt með þeim einstaklingum sem eru utangarðs hverju sinni og með breytingum í samfélaginu. Stefnan þarf að vera sveigjanleg, þannig að Reykjavíkurborg geti á hverjum tíma gert sitt besta til að mæta þörfum hópsins. Undanfarin ár hefur fjölgað í þessum hópi og gefur það tilefni til að skoða vandlega hvar við stöndum í þjónustu við utangarðfólk og hvaða samfélagsþættir valda því að nú fjölgar í hópi utangarðsfólks.

Í stefnunni, sem nú er samþykkt, er lagt til að forvarnir verði stórlega efldar til að koma í veg fyrir að fólk lendi á götunni. Áhersla er m.a. á fjölgun búsetuúrræða fyrir þennan hóp og að borgin nái betur utan um þá þjónustu sem hún er að veita.

Einnig er lögð rík áhersla á að Reykjavíkurborg og ríkisvaldið, sérstaklega heilbrigðiskerfið, vinni meira saman að þessum málaflokki þannig að utangarðsfólk og þeir sem eiga á hættu að verða utangarðs fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og þar með aukin lífsgæði. Velferðarráðherra tekur undir það sjónarmið og því fagnar Reykjavíkurborg. Starfsmenn borgarinnar hlakka til öflugra samstarfs ríkis og sveitarfélags í málaflokknum.

Margt er óunnið til að koma í veg fyrir að fólk lendi utangarðs í samfélaginu og til að mæta þeim sem eru utangarðs. Velferðarráð fagnar stofnun Raddarinnar – baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks. Það er ekki einungis á valdi Reykjavíkurborgar að gera betur í þessum málaflokki, heldur er það sameiginlegt átak margra aðila sem veita hvor öðrum aðhald og þróa framfarir í málaflokknum. Umsagnir Raddarinnar – baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks, er meðal þess sem tekið verður tillit til í gerð aðgerðaáætlunar við framkvæmd stefnunnar sem nú er samþykkt.

Stefna í málefnum utangarðsfólks.